Átti lengsta kastið í Noregi

Mali Halldorsson mundar spjótið í Noregi.
Mali Halldorsson mundar spjótið í Noregi.

Ellefu ára gömul íslensk stúlka, Mali Halldorsson, sem búið hefur í Noregi alla ævi sína, átti lengsta spjótkast ársins í flokki ellefu ára stúlkna. Kastaði hún spjótinu 43,38 metra og myndi kastið raunar duga henni til að ná öðru besta kastinu í flokki þrettán ára.

Af þessu tilefni fékk Mali, auk tveggja stúlkna sem á eftir komu, að spreyta sig í nýrri grein; óformlegri landskeppni Noregs í snjóboltakasti.

Keppnin fór fram á Bislett-leikunum í Ósló sem eru hluti Demantadeildarinnar (e. Diamond League), en þar kepptu margar stórstjörnur frjálsíþróttaheimsins. Í verðlaun fyrir snjóboltakastið voru ýmsar gjafir, þ. á m. nýtt spjót.

Fengu að hitta fyrirmyndir sínar

„Þeim er gert hátt undir höfði og þau keppa í því að kasta snjóbolta sem lengst. Þetta er keppni en þó meira til gamans gert,“ sagði Hrafnkell Halldórsson, faðir Mali, í samtali við blaðamann, en fjölskyldan var þá í þann mund að leggja í hann til Óslóar að fylgjast með Mali.

Að lokinni keppni gafst börnunum tækifæri til að hitta keppendurna og að sögn Hrafnkels var Mali spennt að hitta átrúnaðargoð sín.

Að loknum Demantaleikunum hélt fjölskyldan beint á Tyrvings-mótið, sem stóð yfir um helgina og er eitt stærstu frjálsíþróttamóta Noregs.

Setti met í hástökki

Áður hefur Mali unnið til verðlauna í hinum ýmsu greinum, en hún keppir ekki aðeins í spjótkasti, heldur einnig í hástökki, langstökki, stangarstökki, grindahlaupi og kúluvarpi. Sló hún landsmet í hástökki þegar hún var tíu ára og hefur frjálsíþróttasamband Noregs fylgst náið með framgangi hennar og árangri í nokkurn tíma.

Að sögn Hrafnkels er Mali mjög metnaðarfull og æfir stíft. Öðru fremur hefur hún þó gagn og gaman af íþróttunum.

„Það sem er jákvætt við frjálsu íþróttirnar er að þú getur alltaf mælt hvað þú kastar langt, hoppar hátt o.s.frv. Það er alltaf hægt að sjá einhvern árangur,“ segir hann og bætir því við að mikill uppgangur sé í frjálsum íþróttum í Noregi. Sífellt fleiri börn velji að byrja í þessari fjölbreyttu íþróttagrein.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert