Hefði mátt standa betur að málum

Níu klukkustunda töf varð á fluginu.
Níu klukkustunda töf varð á fluginu. mbl.is/Sigurður Bogi

Betur hefði mátt standa að málum þegar níu klukkustunda seinkun varð á flugi Icelandair frá Ósló í gærkvöldi. Þetta segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, en eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag var mikil óánægja meðal farþega, sem þurftu að bíða í alla nótt á flugvellinum í Ósló og töldu sig hafa fengið ófullnægjandi upplýsingar frá félaginu.

„Þetta virðist hafa verið eitt af þessum erfiðu atvikum, töf sem dróst á langinn inn í nóttina meira en séð varð fyrir í upphafi og ákvarðanir og upplýsingar sem þá voru gefnar reyndust þar af leiðandi ekki nákvæmar þegar á leið,“ segir Guðjón í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is um málið. 

„Þótt okkar fólk ytra gerði sitt besta þá er ljóst, eins og stundum gerist þegar horft er til baka, að þarna mátti betur standa að málum.“

Farþegum fannst þeir sviknir

Eins og mbl.is fjallaði um í dag átti vélin að fara í loftið frá Ósló klukk­an 21:55 á norsk­um tíma, en um klukk­an 19 fengu farþegar til­kynn­ingu um að flug­inu yrði seinkað til klukk­an 4 um nótt­ina. Farþegum var þó sagt að koma ekki síðar en klukk­an 23:00 á flug­völl­inn í Ósló þar sem ör­ygg­is­leit­in á vell­in­um myndi loka klukk­an 23:30. Síðar kom önn­ur til­kynn­ing um að flug­inu væri seinkað til 05:05, en að lok­um fór vél­in ekki í loftið fyrr en klukk­an 06:50.

Guðlaug Gísla­dótt­ir, einn farþega vélarinnar, sagði í samtali við mbl.is í dag að farþegum hefði liðið eins og þeir væru sviknir, þar sem flug­völl­ur­inn sé op­inn all­an sól­ar­hring­inn og þær upp­lýs­ing­ar frá Icelanda­ir um að ör­ygg­is­leit­in myndi loka hefðu hrein­lega ekki verið rétt­ar. „Við höfðum ekk­ert val um hvað við gerðum held­ur vor­um lokkuð inn á flug­völl­inn og lokuð þar inni,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert