Kjálkafundur undir Hafnarfjalli

Kjálkinn sem fannst undir Hafnarfjalli.
Kjálkinn sem fannst undir Hafnarfjalli. Ljósmynd/Álfheiði H. Gunnsteinsdóttir

Fjöruferð Álfheiðar H. Gunnsteinsdóttur og fjölskyldu tók heldur betur óvænta stefnu þegar þau komu auga á neðri kjálka af manneskju. Fjölskyldan var undir miðju Hafnarfjalli, skammt frá heimili þeirra, þegar fundurinn varð, en ásamt Álfheiði var maður hennar og sonur með í för.

„Við vorum þarna að prófa að veiða, að kíkja á steina og tína krabbaskeljar. Ég tók þetta upp og kveikti ekki á perunni strax,“ segir Álfheiður og bætir við að sonur hennar hefði því næst tekið við gripnum og leikið sér með hann. Á dauða sínum átti hún von en ekki að þarna væri á ferð kjálki af manneskju. Þess vegna skeyttu þau litlu um fundinn fyrst um sinn.

„Hann fór bara að leika sér með þetta,“ segir hún hálf hissa yfir þessu öllu saman. „Og þarna voru tveir heilir jaxlar. Hann ætlaði að reyna að ná þeim úr en tókst það sem betur fer ekki.“

Vísir greindi fyrst frá kjálkafundinum. Álfheiður fékk síðan á tilfinninguna að þetta væri eitthvað skrýtið, enda hafi hún áður handleikið kjálka af rollum. „Þetta var öðru vísi,“ segir hún. Hún kannaði málið því betur eftir að heim var komið og var þá fullviss um að þetta væri kjálki af manni.

Skolaði líklega á land

„Ég fór með þetta í Borgarnes,“ segir Álfheiður og ætlaði að afhenda kjálkann lögreglu. „En það var enginn við þar. Lögreglan á Akranesi kom hingað heim og ég sýndi þeim hvar ég fann þetta.“ Spurð hvort kjálkann hafi skolað á land kveður hún það líklegt, þó fjölskyldan sé nýflutt á svæðið og þekki þar af leiðandi straumana ekki nógu vel. 

mbl.is náði ekki í Jón Ólason yfirlögregluþjón á Vesturlandi við vinnslu fréttarinnar. Í samtali við Vísi sagði hann að líklega sé um gamlan kjálka að ræða. Hann verði sendur í greiningu hjá kennslanefnd en ekki er hægt að segja til um hvenær niðurstöðu sé að vænta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert