Allir bæjarbúar mættu niður á höfn

Skriðan á Grænlandi um helgina.
Skriðan á Grænlandi um helgina. Skjáskot/Kunuunnguaq Petersen Geisler

„Fólk var slegið óhug um allt land,“ segir Ingibjörg Gísladóttir í samtali við mbl.is. Hún hefur búið á Grænlandi árum saman og hefur starfað jafnt við félagsþjónustu, ferðabransann og flugumsjón. Flóðbylgja olli gríðarlegu tjóni í þorp­inu Nu­uga­atsiaq aðfaranótt sunnu­dags og er fjög­urra íbúa enn saknað. Fleiri þorp á svæðinu hafa verið rýmd enda alls ekki víst að ham­förun­um á Vest­ur-Græn­landi sé lokið.

„Það er ofboðslega sterk samkennd almennt dagsdaglega, jafnvel þó það séu fleiri þúsund kílómetrar á milli staða,“ segir Ingibjörg, hún býr við suðurströnd Grænlands, en náttúruhamfarirnar urðu norðar.

Ingibjörg telur að um klukkustund eftir að fólk hafi frétt af hamförunum hafi það haft samband við Rauða krossinn og stjórnvöld og boðið fram föt til að aðstoða þá sem eiga um sárt að binda. 

„Einhver slökkviliðsmaður fékk þá hugmynd að það væri hægt að opna allar slökkvistöðvar í landinu og fólk gæti komið þangað með föt, leikföng, teppi og annað. Strax á laugardeginum voru komnir 70 kassar í Maniitsoq og annað eins í Sisimut.“

Þorpið Nu­uga­atsiaq á Græn­landi.
Þorpið Nu­uga­atsiaq á Græn­landi. Ljósmynd/Jón Viðar Sigurðsson

Sumir misstu allt í hamförunum og fljótlega var hrundið af stað peningasöfnun handa þeim. „Menn misstu bátana og veiðarfærin en það eru atvinnutækin þeirra þannig að framfærslan er farin. Það var farið niður í minnstu þorp, alveg niður í 30 manna þorp, með bauka og peningum safnað. Það er búið að opna reikning í Grænlandsbanka þangað sem allt verður lagt inn,“ segir Ingibjörg, en danski herinn og lögregla hafa siglt norður með það sem hefur safnast.

Eins og áður kom fram er enn talin hætta á frekari náttúruhamförum og voru þrjú þorp rýmd vegna þess. „Samtals búa þarna um 200 manns en þetta er stór aðgerð fyrir litla þjóð,“ segir Ingibjörg, en danski herinn sigldi með fólkið burt.

„Siglt var með 80 manns til Aasiaat og þegar skipið lagðist að bryggju þá stóð allur bærinn niður frá. Allir bæjarbúar voru mættir niður að höfn til að taka á móti þeim. Mér skilst að það hafi verið næstum því þögn þegar skipið kom í höfn.“

Eins og kom fram í morgun hefur Hjálp­ar­starf kirkj­unn­ar, í sam­vinnu við KALAK, Hrók­inn og fleiri Græn­lands­vini, hef­ur hrundið af stað lands­söfn­un und­ir heit­inu „Vinátta í verki“ vegna nátt­úru­ham­far­anna á Græn­landi.

Söfnunarreikningurinn er 0334-26-056200, kennitala 450670-0499. Þá er hægt að hringja í 907-2003 og leggja þannig til 2.500 krón­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert