Um 60 færri komast inn í Versló

Verslunarskóli Íslands.
Verslunarskóli Íslands. mbl.is/ Árni Sæberg

Verslunarskóli Íslands þurfti að vísa frá tæplega 180 nemendum sem höfðu sótt um nám í skólanum í haust. Alls voru teknir inn 280 nemendur en í fyrra voru þeir 336 talsins.

Umsóknir nemenda í skólann sem fyrsta og annað val voru 610 talsins en 436 settu hann í fyrsta sæti. Ingi Ólafsson, skólastjóri Verslunarskólans, segir að fjöldi umsóknanna í ár hafi verið svipaður og í fyrra en niðurskurður valdi því að færri eru teknir inn í skólann núna. Nemur mismunurinn um 60 nemendum. 

„Frábærir námsmenn upp til hópa“

„Það er ekki heimild fyrir fleiri nemendum, þó svo að við hefðum getað tekið inn fleiri,“ segir Ingi. „Þessir krakkar sem fengu neitun eru frábærir námsmenn upp til hópa og þeir ættu skilið að komast í hvaða framhaldsskóla sem er.“

Aðspurður segir Ingi að niðurskurður undanfarinna ára og skilaboð um áframhaldandi niðurskurð næstu árin valdi því að taka þurfi færri nemendur inn í skólann. Þrátt fyrir þetta er skólinn enn yfir sínum heimildum hvað varðar fjölda nemenda og þarf skólinn að bera kostnað af því.

Of margir ársnemendur 

Svokallaðir ársnemendur, sem eru í fullu námi við skólann, máttu vera 1.322 fyrir skólaárið 2016 og 2017, þar af 150 í fjarnámi. Á síðasta ári voru um 40 til 50 of margir ársnemendur í skólanum og segir Ingi að enn fleiri nemendur fari fram yfir á þessu ári.

Skrifstofa Verslunarskólans opnar aftur eftir sumarfrí strax eftir verslunarmannahelgina. Nýnemar koma svo í hús 17. ágúst og fá kynningu. Daginn eftir hefst kennsla samkvæmt stundaskrá.

Nánar um innritunina á vef Verslunarskólans

Menntaskólinn við Sund.
Menntaskólinn við Sund. mbl.is/Árni Sæberg

Niðurskurður í MS

Fleiri framhaldsskólar í Reykjavík þurfa að taka inn færri nýnema en áður. Í Menntaskólanum við Sund þurfa stjórnendur að skera niður í innritununum um 27% frá því á síðasta ári vegna þess að skólinn hefur aðeins heimild fyrir ákveðnum fjölda ársnemenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert