1.152 manns hjóla af stað

Frá ræsingu keppninnar í fyrra en keppnin í ár er …
Frá ræsingu keppninnar í fyrra en keppnin í ár er stærri en nokkru sinni fyrr. Kristinn Magnússon

Liðakeppni WOW Cyclothon-hjólreiðakeppninnar hefst í kvöld. Klukkan 18:00 leggja af stað 13 fjögurra manna lið í A-flokki og klukkan 19:00 verður keppni í B-flokki tíu manna liða ræst þar sem 1.100 einstaklingar taka þátt. Í gær lögðu af stað yfir 100 keppendur í einstaklings- og Hjólakraftsflokki en metfjöldi þátttakenda er í keppninni í ár.

Í tilkynningu WOW Cyclothon segir að í ár taki þátt fjögur lið í B-flokki sem eingöngu eru skipuð björgunarsveitarfólki en söfnun keppninnar er til styrktar Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Myndast hefur góð stemning á meðal björgunarsveitanna í kjölfarið. Eitt liðanna er frá Björgunarsveit Hafnarfjarðar og segir í kynningu liðsins að reynslan úr björgunarstarfinu hafi eflt þau andlega og að þau séu reiðubúin undir nándina, svita- og táfýluna og takmarkaðan svefn sem fylgir í svona keppni.

Þar að auki verður björgunarsveitarfólk við rás og endamark en það sjái til þess að keppnin fari fram á sem öruggastan hátt með því að upplýsa ökumenn um komu hjólreiðafólks á upplýsingaskjám Safetravel sem staðsettir eru á um 100 stöðum um allt land.

Aldrei hafa fleiri erlendir keppendur komið til landsins til þess að taka þátt í keppninni en á bilinu 100-150 manns og 15 lið eru skráð til leiks sem eru að öllu eða mestu skipuð erlendum keppendum. Koma liðin alls staðar að úr heiminum, allt frá Bandaríkjunum til Hong Kong.

Hægt verður að fylgjast með keppendum dag og nótt í beinni útsendingu á stöð 0 í Sjónvarpi Símans og á heimasíðu WOW Cyclothon. Þar verður hægt að sjá viðtöl við lið og fylgjast með því hverjir koma fyrstir í mark á föstudagsmorgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert