Ákærð fyrir fjárdrátt og peningaþvætti

Konan lét líta út fyrir að bankinn væri að greiða …
Konan lét líta út fyrir að bankinn væri að greiða kröfur eiginmannsins. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Kona, sem er fyrrverandi starfsmaður á fjármálasviði Landsbankans, hefur verið ákærð fyrir tæplega 34 milljóna króna fjárdrátt og peningaþvætti í starfi sínu. Brotin áttu sér stað á tæplega þriggja ára tímabili, frá desember 2013 til september 2016.

Ákæran er í þremur liðum, en í fyrsta lið er konunni gefið að sök að hafa dregið að sér, og eiginmanni sínum, sem nú er látinn, tæplega 12 milljónir króna. Það gerði konan með því að millifæra fjármunina í 30 færslum út af bankareikningi í eigu Landsbankans yfir á bankareikning eiginmannsins.

Með millifærslunum lét ákærða líta út fyrir að Landsbankinn og Reykjavíkurborg væru að greiða kröfur eiginmannsins, en um var að ræða tilhæfulausar kröfur sem ákærða stofnaði í fyrirtækjabanka hans. Greiddi konan fjármunina út af bankareikningi Landsbankans í gegnum tölvukerfi bankans og ráðstafaði ávinningnum í eign þágu.

Hélt áfram eftir að eiginmaðurinn lést

Í öðrum lið er konunni gefið að sök að hafa dregið að sér tæplega 22 milljónir króna með sömu aðferð. Fjármunirnir voru millifærðir í 28 færslum út af reikningi Landsbankans yfir á bankareikning eiginmannsins, sem þá var látinn.

Í þriðja lið er konan ákærð fyrir peningaþvætti  með því að hafa lagt tæpar 34 milljónir króna inn á bankareikning eiginmannsins hjá Landsbankanum, en fjárhæðin var ávinningur öðrum brotum sem ákærðu eru gefin að sök. Millifærði hún svo fjármunina inn á annan bankareikning eiginmannsins og jafnframt sinn eigin reikning, þar sem hún geymdi ávinninginn þar til hún ráðstafaði honum til persónulegra útgjalda.

Landsbankinn krefst þess að konunni verði gert að greiða alla upphæðina til baka auk vaxta. Þá gerir Héraðssaksóknari kröfu um að tvær fasteignir í eigu ákærðu verði gerðar upptækar fyrir dómi. Málið verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert