Ástralskt par sækir um hæli hér

Tvær ástralskar konur hafa sótt um hæli á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Segja þær að afstaða Ástrala í garð samkynhneigðra ógni lífi þeirra. 

Parið, transkonan Ashley Ihász og Stephanie McCarthy, er meðal margra sem bíða eftir niðurstöðu sinna mála hjá Útlendingastofnun en fjallað er um mál þeirra í Daily Telegraph í gær.

Þar kemur fram að biðin sé löng eftir hæli á Íslandi en meðal þeirra eru flóttamenn frá Sýrlandi og Írak. Þær séu hins vegar ekki að flýja Ríki íslams líkt og flestir þeirra heldur hatur í garð samkynhneigðra í Sydney.

McCarthy, sem er 45 ára gömul, varð fyrir ofbeldi á krá fyrir tveimur árum og að sögn Ihász bárust þeim hótanir af hálfu lögreglu eftir árásina og þær óttist um líf sitt. 

Ihász skrifar á síðu sína á vefnum Go Fund Me að Stephanie hafi ítrekað verið ógnað af lögreglu og hótað. Lögreglan neitar hins vegar ásökunum. 

Blaðamaður Daily Telegraph ræddi við parið sem býr tímabundið í Keflavík og bíður eftir svari frá Útlendingastofnun. Ihász vildi hins vegar ekki veita blaðinu viðtal. 

Í fréttinni kemur fram að samkynhneigt par (Kúrdar frá Írak) sem átti yfir höfði sér dauðadóm ef vígasveitir Ríki íslams næðu þeim hafi fengið hæli af mannúðarástæðum á Íslandi í fyrra en fjölmargir flóttamenn hafi fengið synjun hér á landi. 

Frétt Daily Telegraph í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert