Geirmundur fyrir norðan, hip hop á Selfossi

Ómar Þór Sigvaldason, Arnar Sigurbjörnsson og Örn Unnarsson og eru …
Ómar Þór Sigvaldason, Arnar Sigurbjörnsson og Örn Unnarsson og eru liðsmenn Team Cintamani. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lið Cintamani í WOW Cyclothon hitar sig upp fyrir keppni með gítarspili, söng og dansi en liðið lagði af stað frá Egilshöll í kvöld. Liðið heldur sér heitu með lifandi tónlist allan hringinn líkt og í fyrra og er lagalistinn síbreytilegur eftir landshlutum.

Þeir Arnar Sigurbjörnsson, Örn Unnarsson og Ómar Þór Sigvaldason eru liðsmenn Cintamani og voru nýbúnir að taka nokkur dansspor við glimrandi gítarspil og söng á planinu við Egilshöll þegar mbl.is náði af þeim tali.

„Það er lágmark að koma púlsinum og öllu saman á hreyfingu áður en þetta byrjar allt saman,“ segir Ómar, „þetta er ekki hægt öðruvísi.“ Stuðið heldur áfram í rútunni allan hringinn en spurðir um lagalistann segja þeir hann að einhverju leyti breytast eftir landshlutum.

Gítarinn er aldrei langt undan og fer með Team Cintamani …
Gítarinn er aldrei langt undan og fer með Team Cintamani allan hringinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það má koma með óskalög líka en þetta fer svolítið eftir landsfjórðungum hvað við spilum. Það er Geirmundur fyrir norðan náttúrlega, svo eru það Dúkkulísurnar þegar við erum fyrir austan,“ svara þeir og á Suðurlandi eru það meðal annars Paparnir. „Eða eitthvert hip hop hjá Selfossi; 1,2 og Selfoss!“ segir Ómar léttur í bragði.

Þeir félagar kepptu einnig í fyrra en hverjar eru væntingar liðsins til keppninnar í ár? „Nú, bara að koma heilir heim,“ svarar Arnar og hlær. Þeir ætli vissulega að gera sitt besta en fyrst og fremst að hafa gaman af þessu, njóta og reyna að gera betur en í fyrra.

Liðsmenn Team Cintamani í WOW Cyclothon í fyrra.
Liðsmenn Team Cintamani í WOW Cyclothon í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert