Hæggengt færiband í leyfisveitingum

Starfsleyfi fyrir regnbogasilung og þorsk í Ísafjarðardjúpi var ógilt.
Starfsleyfi fyrir regnbogasilung og þorsk í Ísafjarðardjúpi var ógilt. mbl.is/Helgi Bjarnason

„Ég tel að það standi engin efni til þess enda vandséð hvernig hægt er að hægja meira á þeim málsmeðferðartíma sem hefur verið í kerfinu að undanförnu,“ segir Einar K. Guðfinnsson, formaður Landssambands fiskeldisstöðva, spurður hvort úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um ógildingu starfsleyfis Háafells til sjókvíaeldis í Ísafjarðardjúpi myndi hægja á leyfisveitingum.

Frétt mbl.is: Skýra þarf nánar hlutverk einstakra stofnana

Einar bendir á í þessu sambandi að eftir að nýtt fyrirkomulag tók gildi með endurskoðuðum lögum um fiskeldi í byrjun árs 2015 hafi aðeins eitt leyfi verið veitt en það hafi verið stækkun á leyfi sem var áður gefið út. „Ég tel að það eigi að vera hægt að vinna þessi mál af meiri hraða. Ferlið er flókið, það verður að viðurkenna. Mér finnst að þessi úrskurður nefndarinnar sýna okkur að öll gagnrýni á að reglurnar sem við búum um séu ekki nægjanlega stífar er ekki á rökum reist. Því er haldið fram að leyfin renni á færibandi í gegn um stofnanir þegar staðreyndirnar eru aðrar. Það er hæggengt færiband sem eitt leyfi fer um á 1.000 dögum,“ segir Einar.

Frétt mbl.is: Starfsleyfi sjókvíaeldis ógilt

Öll fiskeldisfyrirtækin eru með umsóknir um stækkanir og ný svæði í ferli. Flest málanna eru í umhverfismati.

Vegvísir til framtíðar

„Þessi úrskurður felur í sér ábendingar og gagnrýni á málsmeðferð. Ekki er verið að víkja að efnisatriðum í starfsleyfinu sjálfu. Ég tel að fyrst og fremst þjóni þessi úrskurður því hlutverki að vera vegvísir til framtíðar, um það hvernig haga beri málsmeðferð varðandi útgáfu starfsleyfa,“ segir Einar um niðurstöðu úrskurðarnefndar.

„Ekki er gott að segja til um áhrifin til lengri tíma. Þó tel ég að með því að skýra leikreglur  ætti útgáfa leyfa að vera auðveldari til framtíðar litið. Þá má geta þess að Umhverfisstofnun hefur þegar brugðist við þessum athugasemdum í starfi sínu að undanförnu,“ segir Einar K. Guðfinnsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert