Segir heilbrigðisyfirvöld á rangri braut

Stærstu mistök stjórnvalda eru að hafa enga heildstæða stefnu í …
Stærstu mistök stjórnvalda eru að hafa enga heildstæða stefnu í heilbrigðismálum að mati Britnells. mbl.is/Ófeigur

Heilbrigðisstofnanir á Íslandi eru of einangraðar og stjórnvöld þurfa fremur að beina augum sínum að rót vandans í heilbrigðiskerfinu en einkennum hans. Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Mark Britnells sem hefur veitt ráðgjöf til heilbrigðisyfirvalda um allan heim. 

Fyrirlesturinn var fjölsóttur og átti sér stað húsakynnum KPMG í Borgartúni í morgun. Britnell hefur víðtæka reynslu í heilbrigðisgeiranum. Hann var einn af stjórnendum sjúkrahússins í Birmingham og hefur starfað hjá KPMG í átta ár og veitt ráðgjöf til heilbrigðisyfirvalda í 69 löndum á vegum fyrirtækisins.  

„Íslenska kerfið fengi gullverðlaun fyrir það hversu einangraðar heilbrigðisstofnanirnar eru. Það er furðulegt að svo framsækið land hafi svo íhaldssamt kerfi,“ segir Britnell. Hann er efins um stefnu stjórnvalda í heilbrigðismálum og segir þau einblína á einkennin fremur en rót vandans. Hann segist hafa áttað sig betur á því þegar hann var í heimsókn á Landspítalanum í gær þar sem honum var tjáð að þar biðu um 50-60 aldraðir sjúklingar sem hægt væri að sinna á öðrum stofnunum eða á heimilum þeirra. 

„Land sem ákveður að heilbrigðisstefnan sé einungis að minnka biðlista og byggja sjúkrahús kemst fljótt að því að það er aldrei nógu mikið fjármagn til að minnka biðlista og byggja sjúkrahús. Langir biðlistar eru einkennai einhvers kerfisvanda.“

Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum, var meðal fundargesta.
Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum, var meðal fundargesta. mbl.is/Ófeigur

Britnell segir að íslenska kerfið standi ágætlega í alþjóðlegum samanburði. Þrátt fyrir að heilbrigðistútgjöld séu í lægri kantinum, eða um 8,7% af landsframleiðslu, fáum við mikið virði fyrir peninginn. Spurður hver hans fyrstu verk væru ef hann gegndi stöðu heilbrigðismálaráðherra á Íslandi telur hann þrjú atriði. 

„Ég myndi búa til framsæknast heilbrigðiskerfi í heimi þar sem sjúklingar væru mikilvægari en stofnanir. Í fyrsta lagi myndi ég kortleggja heilbrigði almennings, í öðru lagi endurskipuleggja ummönnun aldraðra og í þriðja lagi brjóta niður veggi milli heilbrigðisstofnana.“

Auðvelt að festast í kreddum

Hluti ríkisútgjalda af heilbrigðisútgjöldum á Íslandi er hærri en meðaltal OECD-landanna, eða 83% í samanburði við 72%. Britnell telur að hægt sé að nota einkageirann á ýmsum sviðum kerfisins. „Það á til dæmis við þegar sjúklingar þurfa að bíða lengi eftir aðgerðum. Þetta er umdeilt mál og eigum það til að festast í kreddum þegar við ættum frekar að hugsa um hvað sjúklingurinn þarf.“

Í fyrirlestrinum sagði Britnell að ekkert kerfi í heiminum væri fullkomið, öll lönd hefðu eitthvað fram að færa og öll lönd gæta lært af öðrum. Ástralía skarar fram úr í geðheilsumálum, Bandaríkin í lyfjarannsóknum, Singapúr í tæknivæðingu og Japan í ummönnun á öldruðum. Stærstu mistökin, segir Britnell, er að hafa ekki heildstæða heilbrigðisstefnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert