Stígamót ekki hafin yfir gagnrýni

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta.
Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er fjarri því að Stígamót séu hafin yfir gagnrýni og það er hárrétt að vinnustaðurinn okkar er ekkert venjulegur. Okkur þykir mjög leitt að fyrrum samstarfskona okkur hafi upplifað samskipti sín við okkur sem ofbeldi og tökum við málinu af fullri alvöru.“

Svona hefst yfirlýsing frá Stígamótum vegna pistils sem Helga Bald­vins­dótt­ir Bjarg­ar­dótt­ir, fyrrverandi starfsmaður Stígamóta birti á Face­book-síðu sinni í nóttÍ pistl­in­um fjall­ar hún um reynslu sína af því að starfa hjá Stíga­mót­um, og sakaði samstarfsmenn sína þar um einelti og ófagleg vinnubrögð.

Í yfirlýsingunni segir að trúnaður sé forsenda starfs Stígamóta. Verst þykir okkur að vera sökuð um trúnaðarbrest gagnvart Stígamótafólki. Trúnaður og traust er forsenda starfs Stígamóta. Starf okkar snýst um að hlusta á lýsingar á grófum mannréttindabrotum. Þau getur verið erfitt að hýsa og bera og óhugsandi er að ræða þau utan vinnustaðarins.“

Þá kemur fram að Stígamót falli það þungt að starfshópurinn allur hafi verið sakaður um ofbeldi „og einkum að ein úr hópnum hafi verið tekin sérstaklega fyrir í þeim efnum,“ en í pistli Helgu fjallar hún sérstaklega um hæstráðanda. Talskona Stígamóta er Guðrún Jónsdóttir.

„Starfshópurinn fundaði án þeirrar sem ásökuð er um að stjórna ofbeldinu og var niðurstaðan sú að starfsfólk Stígamóta hefur ekki sömu upplifun og ber fullt traust til viðkomandi starfskonu,“ segir í yfirlýsingunni.

Hér fyrir neðan má lesa yfirlýsinguna í heild:

Yfirlýsing frá Stígamótum

Vegna frásagnar fyrrverandi starfskonu sendum við frá okkur eftirfarandi:

Það er fjarri því að Stígamót séu hafin yfir gagnrýni og það er hárrétt að vinnustaðurinn okkar er ekkert venjulegur. Okkur þykir mjög leitt að fyrrum samstarfskona okkur hafi upplifað samskipti sín við okkur sem ofbeldi og tökum við málinu af fullri alvöru.

Trúnaður er forsenda starfs okkar

Verst þykir okkur að vera sökuð um trúnaðarbrest gagnvart Stígamótafólki. Trúnaður og traust er forsenda starfs Stígamóta. Starf okkar snýst um að hlusta á lýsingar á grófum mannréttindabrotum. Þau getur verið erfitt að hýsa og bera og óhugsandi er að ræða þau utan vinnustaðarins.

Leið okkar til þess að vera eins fagleg og við mögulega getum, er að hafa sameiginlega handleiðslu hálfsmánaðarlega undir stjórn faglærðs utanaðkomandi sérfræðings sem gætir hlutleysis. Auk þess býðst öllu starfsfólki einkahandleiðsla. Í bókunarkerfinu okkar er fólk aðeins skráð undir fornafni og í handleiðslu ræðum við „mál“ en ekki persónur. Stundum koma fornöfn til tals, en allur fókusinn er á málinu og hvernig best sé hægt að verða að liði. Með þessu móti fullyrðum við að hjálpin sem fólki býðst á Stígamótum sé mun faglegri og betri en ef hvert og eitt okkar þættist óskeikult. Það sem hefur reynst okkur vel til þess að geta hjálpað best í erfiðum málum er að hópurinn haldi á þeim saman. Þessi aðferð er alþekkt og notuð af mörgum faghópum sem vinna með svona alvarleg mál.

Um menntun og fagmennsku

Varðandi menntun starfshópsins skal því haldið til haga að á Stígamótum hefur allt starfsfólk háskólamenntun. Hér vinna tveir sálfræðingar, tveir félagsráðgjafar, listmeðferðarfræðingur, náms- og starfsráðgjafi, fjölskyldumeðferðarfræðingur, þrír kynjafræðingar með ýmsa aðra háskólamenntun, einn bókmenntafræðingur og einn kennari.

Fellur okkur það þungt að starfshópurinn allur hafi verið sakaður um ofbeldi og einkum að ein úr hópnum hafi verið tekin sérstaklega fyrir í þeim efnum. Starfshópurinn fundaði án þeirrar sem ásökuð er um að stjórna ofbeldinu og var niðurstaðan sú að starfsfólk Stígamóta hefur ekki sömu upplifun og ber fullt traust til viðkomandi starfskonu.

Að öðru leyti getum við ekki svarað gagnrýninni nema brjóta trúnað gagnvart fyrrverandi starfskonu og það ætlum við ekki að gera. Því sendum við frá okkur þessa yfirlýsingu.

Reykjavík 21. júní 2017

Stjórn og starfshópur Stígamóta

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert