„Þjóta, njóta, og safna eins og vindurinn"

#hálfsystur
#hálfsystur Ljósmynd/Björg Vigfúsdóttir

Team Arctica Finance er eitt af sex kvennaliðum sem taka þátt í WOW Cyclothon í ár. Liðið samanstendur af 10 konum sem allar hafa víðtæka reynslu af hjólaheiminum og hafa þær allar tekið þátt í keppninni áður á einn eða annan hátt.

Konurnar, sem ganga undir nafninu #hálfsystur, kynntust allar árið 2012 þegar þær tóku þátt í hálfum járnkalli sem þá var haldinn var í Hafnafirði. „Við höfum verið að bralla ýmislegt síðan, hlaupið maraþon og farið í hálfan ironman og allskonar keppnir hingað og þangað“, segir Lilja Birgisdóttir, einn liðsmannanna. Í ár ákváðu þær að hjóla saman hringinn í kring um Ísland.  

Reynsluboltar

Samtals hafa meðlimir liðsins hjólað 17 sinnum í keppninni og koma því að henni frá ólíkum sjónarhornum og mikilli reynslu. Í liðinu eru tvær landsliðskonur, einn íslandsmethafi í járnkalli auk fyrrverandi dómara og keppnisstjóra WOW Cyclothon.

Lilja segir að í fyrsta sinn sem keppnin var haldin hafi tvær þeirra tekið þátt í fjögurra manna liðum sem þá var það eina sem var í boði. Hafi þær verið frekar ýktar í æfingum en sagan segir að þjálfarinn þeirra hafi vakið liðsmenn upp um miðja nótt og látið þær fara út og hjóla.

Stelpurnar í Team Arctica Finance tóku mynd af hópnum með …
Stelpurnar í Team Arctica Finance tóku mynd af hópnum með Costco gíraffanum fræga. Ljósmynd/Lilja Birgisdóttir

Skapa góðar minningar

Árið 2013 slasaðist ein úr hópnum en í upphafi þessa árs var hún byrjuð að koma rólega til baka og þá ákvað hópurinn þá að taka þátt í WOW Cyclothon til þess að fagna því og halda áfram að skapa góðar minningar.

Þær segja að keppnin sé tilvalin í hópefli fyrir vini og vinnufélaga. Hún skapar góða stemningu þar sem þátttakendur setja sér markmið og hvetja hvort annað. Þá þjappar hún hópnum saman og liðsmenn kynnast styrkleikjum hvors annars en fyrst og fremst sé þetta skemmtun í stórbrotnu landslagi.

Markmið þeirra er að „þjóta, njóta, og safna eins og vindurinn fyrir Landsbjörg.“ Hægt er að fylgjast með liðinu á Facebook og á heimasíðu WOW Cyclothon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert