Var fjóra mánuði á vökudeild

Ljósmynd sem Benedikt tók af sér og unnustu sinni Ingunni …
Ljósmynd sem Benedikt tók af sér og unnustu sinni Ingunni Sigurbjörgu með vikugamlan son sinn.

„Ég vildi endilega fá að gefa til baka enda er starfið sem unnið er þarna gjörsamlega ómetanlegt,“ segir Benedikt Birgir Hauksson, þátttakandi í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka í ágústmánuði. Benedikt ákvað að hlaupa til styrktar vökudeild Barnaspítala Hringsins, þar sem annar tvíburasona hans og kærustu hans, Ingunnar Sigurbjargar Friðþórsdóttur, dvaldi í um fjóra mánuði eftir að hafa fæðst fyrir tímann.

„Ég og kærasta mín eignuðumst tvíburastráka eftir aðeins 23 vikna langa meðgöngu 31. janúar á þessu ári. Við misstum yngri strákinn fljótlega eftir fæðingu en hinn var á vökudeild í um fjóra mánuði,“ segir Benedikt. Hann telur starfið sem unnið er á spítalanum vera ómetanlegt.

„Það er rosalega vel haldið utan um mann, við fengum strax viðtal við ráðgjafa og sjúkrahúspresta. Þar að auki voru læknarnir og hjúkrunarfræðingarnir mjög duglegir að halda okkur upplýstum um stöðu mála.“

Markmiðið að safna sem mestu

Benedikt hefur nú þegar náð markmiðinu sem hann upphaflega setti sér þó að einungis séu liðnar rúmar þrjár vikur síðan hann setti söfnunina á stað. Hann segist ekki hafa átt von á þessum mikla stuðningi. „Ég setti þetta nú inn með það í huga að þessir allra nánustu styddu við bakið á okkur. Síðan þá hafa safnast rúmar 151 þúsund krónur, sem er framar björtustu vonum okkar, það er alveg greinilegt að fólk vill styrkja Hringinn.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Benedikt tekur þátt í Reykjavíkurmaraþoninu, en í fyrra hljóp hann ásamt Ingunni Sigurbjörgu. Hann segir hlaupið í fyrra einungis hafa verið til gamans gert en nú sé markmiðið fyrst og fremst að safna peningum fyrir Barnaspítala Hringsins. „Ég geri ráð fyrir því að hlaupa einn í ár enda er kærastan mín ennþá að jafna sig eftir þetta allt saman. Nú er aðalmálið bara að ná að safna sem mestum pening fyrir vökudeildina,“ segir Benedikt og bætir við að upphaflega hafi hann ætlað sér að hlaupa hálfmaraþon.

„Ég hafði nú ætlað mér að taka 21 kílómetra en þar sem maður hefur verið mestmegnis sitjandi undanfarna fjóra mánuði verður maður að láta tíu duga.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert