Vinnubúðir rísa vegna Dýrafjarðarganga

Suðurverk flytur vinnubúðir.
Suðurverk flytur vinnubúðir. mbl.is/Helgi Bjarnason

Vinnubúðir eru teknar að rísa í Arnarfirði vegna framkvæmda við Dýrafjarðargöng en reiknað er með að byrjað verði að sprengja þar í ágúst eða september.

Að sögn Dofra Eysteinssonar, framkvæmdastjóra Suðurverks, eru meðal annars teknir skúrar úr Norðfirði  sem eru í eigu fyrirtækisins. Pláss verður fyrir um fjörutíu starfsmenn í skúrunum, sem verða staðsettir skammt frá Mjólkárvirkjun.

„Það tekur margar vikur að ganga frá þessu öllu með tilheyrandi geymslu, verkstæði og öðru slíku,“ segir hann.

Ekki er ljóst hversu margir munu starfa við göngin. Dofri segir að starfsmenn tékkneska fyrirtækisins Metrostav verði í meirihluta þeirra sem starfa við borun og sprengingar.

Byrjað verður að sprengja Arnarfjarðarmegin og grafnir þaðan um 4 kílómetrar. Það sem upp á vantar á 5.300 metra löng göngin verður grafið úr Dýrafirði. Við bætast 300 metra vegskálar þannig að heildarlengd ganganna verður 5,6 kílómetrar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert