Yfir 100 ofbeldismál til Bjarkarhlíðar

mbl.is/G.Rúnar

„Auðvitað er alltaf sorglegt að fólk þurfi að leita til svona úrræðis en staðreyndin er sú að við lifum ekki í ofbeldislausu samfélagi,“ segir Hafdís Inga Hinriksdóttir, félagsráðgjafi og sérfræðingur hjá Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Frá því Bjarkarhlíð opnaði formlega í byrjun mars hafa 103 mál komið þangað inn.

Af málunum sem komið hafa inn til Bjarkarhlíðar hafa 53 leitt til viðtals hjá lögreglu. Af þeim málum hafa 18 leitt til kæru, en að sögn Hafdísar er um að ræða ný mál sem ætla má að ekki hafi annars komist inn á borð lögreglu.

Mikilvægt að hafa alla undir einu þaki

Meginmarkmið móttökumiðstöðvarinnar er að brotaþolar fái á einum stað þá þjónustu sem á þarf að halda í kjölfar ofbeldis. Auk sérfræðinga sem starfa í Bjarkarhlíð geta þolendur ofbeldis því einnig hitt lögreglu, fulltrúa frá Stígamótum, Drekaslóð, Samtökum um kvennaathvarf, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kvennaráðgjöfinni á staðnum. Í heildina hafa 271 viðtal verið tekið í Bjarkarhlíð og allir viðtalstímar hjá samstarfsaðilum nánast verið fullnýttir.

„Við erum að sjá hversu ótrúlega mikilvægt þetta úrræði er og hversu mikilvægt það er að hafa alla aðila undir einu þaki,“ segir Hafdís. Af þeim sem leitað hafa til móttökumiðstöðvarinnar eru 93 konur og 8 karlar og hefur stór hluti þeirra þegið áframhaldandi viðtöl í Bjarkarhlíð. Langflest málin koma frá Reykjavík, eða 74 mál, en 8 mál koma frá Kópavogi, 7 frá Hafnarfirði og 14 annars staðar frá af landinu.

Ragna Björg Guðbrandsdóttir og Hafdís Inga Hinriksdóttir starfa í Bjarkarhlíð.
Ragna Björg Guðbrandsdóttir og Hafdís Inga Hinriksdóttir starfa í Bjarkarhlíð. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Skilar sér í betri þjónustu til brotaþola

Hafdís segir samstarfið hafa verið mjög gott sem skili sér í betri þjónustu til brotaþola. „Það er lögreglukona hér öllum stundum sem er ótrúlega dýrmætt því við getum kallað hana í viðtal ef þörfin er slík,“ segir Hafdís og bætir við að hún sé viss um að málin átján sem komin eru í kæruferli hefðu ekki farið til lögreglu ef þolendur hefðu ekki fengið lögregluaðstoð á sama stað og þeir komu í viðtal. „Við erum að upplifa það að einhver sem hefði ekki endilega hugsað sér að kæra stígi frekar þau skref að kæra með auknum stuðningi og betra aðgengi að upplýsingum.“

Eftir að tekin hefur verið ákvörðun um að fara af stað í kæruferli er réttargæslumaður kallaður til ef það á við, og gerir þessi þjónusta það að verkum að þolandi þarf ekki að fara á fjölmarga staði til að fá fyrstu hjálp eftir brot. „Við erum með þessu að auka stuðning við brotaþola,“ segir Hafdís.

Í heildina hafa 72 viðtöl verið tekin hjá lögreglu í Bjarkarhlíð er varða 53 einstaklinga. 22 af þeim málum hafa verið vegna heimilisofbeldis, 20 vegna kynferðisofbeldis og 11 vegna annars konar ofbeldis. Af þeim málum voru 18 kærur lagðar fram, 11 vegna kynferðisofbeldis, 6 vegna heimilisofbeldis og eitt mál vegna hatursglæps.

Ómetanlegur stuðningur í erfiðu ferli

„Við erum að heyra virkilega ánægju frá þeim sem hingað hafa leitað og fólk talar um það að þessi stuðningur sé ómetanlegur,“ segir Hafdís og bendir á að þeir sem hafi farið af stað í kæruferli hafi verið sérstaklega ánægðir með gott utanumhald. „Það eru þung skref að fara inn í þetta kæruferli og þá er ómetanlegt að hafa þennan stuðning. Það er engin spurning að þetta er að skila árangri.“ 

Bjarkarhlíð opnaði 1. mars síðastliðinn og er þróunarverkefni til tveggja ára (2017-2019). Hafdís segist hafa trú á því að tölurnar tali sínu máli og eigi eftir að gera það að verkum að starfið haldi áfram eftir árin tvö. „Við erum að sjá virkilega þörf fyrir svona úrræði og trúum því og vonumst til þess að þetta komi til með að halda áfram. Við erum að þróa starfið á hverjum degi og gera betur,“ segir hún. „Það er mikill metnaður og vilji til að búa til úrræði sem enginn mun vilja leggja niður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert