Almenn ánægja meðal foreldra

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

96% foreldra leikskólabarna í Reykjavík eru ánægð með leikskólann sem barnið þeirra er í. Þetta kemur fram í nýrri könnun meðal foreldra leikskólabarna sem gerð var á vormánuðum. 

Þar kemur fram að 98% foreldra telja að barninu þeirra líði vel í leikskólastarfinu og eins telja 98% að barnið sé þar öruggt.

87% foreldra finnst aðbúnaður barna í leikskólanum góður og 94% foreldra telja sig fá góðar upplýsingar um leikskólastarfið. Um 76% foreldra telja að barnið sé ánægt með matinn og 72% þeirra eru sjálf ánægð með þann mat sem barnið þeirra fær í leikskólanum.

Niðurstöðurnar eru nánast þær sömu og fyrir tveimur árum þegar sambærileg könnun var gerð meðal foreldra. Þó segjast marktækt fleiri foreldrar nú þekkja stefnu og gildi leikskólans en árið 2015 og eins finnst marktækt fleirum nú að stjórnendur leggi sig fram við að vera sýnilegir í daglegu starfi miðað við fyrir tveimur árum.

Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, segir í frétt á vef Reykjavíkurborgar þessar niðurstöðurnar ánægjulegar. „Þær sýna svo ekki verði um villst að í reykvískum leikskólum fer fram metnaðarfullt fagstarf sem standast [sic] kröfur og væntingar foreldra. Könnunin gefur líka mikilvægar upplýsingar um hvar úrbóta er helst þörf og munum við nýta þær niðurstöður vel til að gera enn betur í framtíðinni.“ 

Könnunin í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert