Fluginu seinkar um sjö klukkutíma

Flugi Icelandair til Kaupmannahafnar seinkar um sjö klukkutíma vegna óhapps. …
Flugi Icelandair til Kaupmannahafnar seinkar um sjö klukkutíma vegna óhapps. Mynd úr safni. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Áætlað er að flug Icelandair til Kaupmannahafnar, sem átti að fara klukkan 13:00 í dag en þurfti að fresta vegna óhapps, fari ekki í loftið fyrr en klukkan 20:00 í kvöld. Farþegar um borð í vélinni þurftu að yfirgefa vél­ina eftir að þeir voru komnir um borð eft­ir að land­göngu­brú rakst utan í vélina.

Guðjón Arn­gríms­son, upp­lýs­inga­full­trúi Icelanda­ir, staðfesti óhappið í samtali við mbl.is fyrr í dag en rétt fyrir klukkan fjögur í dag var farþegum tilkynnt að brottför seinki til klukkan átta í kvöld, sjö klukkustundum seinna en áætlað var í upphafi.

Farþegi um borð í vél­inni sagðist í samtali við mbl.is hafa heyrt að rispa hafi komið á vél­ina sem skoða þurfti bet­ur og því hafi hún verið rýmd. Þá hafi farþegar sem sátu framar­lega í vél­inni fundið fyr­ir henni hrist­ast þegar land­göngu­brú­in rakst utan í hana.

Ekki hafa fengist frekari upplýsingar um óhappið að svo stöddu, til að mynda hvort og þá hversu miklar skemmdir hafi orðið á vélinni eða hvort önnur vél verði send í hennar stað, en farþegar bíða nú í flugstöðinni eftir að lagt verði af stað til Kaupmannahafnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert