Gott að vera í skjóli Esjunnar

Svona verður veðrið á hádegi á laugardag.
Svona verður veðrið á hádegi á laugardag. mbl.is/kort

Veðurspár gera ráð fyrir frekar stífri norðaustanátt um allt land á laugardag en skaplegra veðri á sunnudag. Veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir að besta veðrið um helgina verði á Suðurlandi, þar verði minnsti vindurinn og minnsta úrkoman og hitinn fer í 15 gráður.

Það verður stíf norðaustanátt á öllu landinu á laugardag og það er ekki fyrr en á sunnudag sem veður verður betra,“ segir Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. 

Eins og áður hefur komið fram gera spár ráð fyrir stormi austan Öræfa og á Austfjörðum. Vindhviður verða þar allt að 35 m/​s með talsverðri rigningu og er varasamt að vera þar á ferð með ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

Helga segir að aðstæður á höfuðborgarsvæðinu á laugardag geti orðið mismunandi eftir því hvar fólk er statt. „Það skiptist svolítið eftir því hvar á höfuðborgarsvæðinu þú ert. Þau svæði sem eru í skjóli hjá Esjunni þau fá þokkalegt veður en annars verður stífur vindur.“

Veðurfræðingurinn gerir ráð fyrir fínu veðri á suðvesturhorninu á sunnudag og segir að næsta vika verði góð um allt land. „Þá verður hæðasvæði yfir okkur. Það verður ekki mjög hlýtt en milt og skaplegt veður.“

Spurð um hvar verður best að vera um helgina segir Helga að besta veðrið verði á Suðurlandi. „Þar verður minnst úrkoma og minnstur vindur.“

Ekki heitt í Evrópu og kalt hér

Hitabylgja hefur gengið yfir en júnímánuður verður að öll­um lík­ind­um sá heit­asti í London frá ár­inu 1976. Í rann­sókn sem birt var á mánu­dag var varað við því að hita­bylgj­ur verði al­geng­ari í framtíðinni vegna lofts­lags­breyt­inga. 

Helga segir ekki tengingu á milli hita í Evrópu og kulda hér, þótt vikan sem senn sé á enda hafi verið á þá leið. Hins vegar sé tenging á milli hæðasvæða hér og lægðasvæða yfir Skandinavíu, og öfugt.

„Eftir helgi er lægðin yfir Skandinavíu og við fáum hæðina en samt er enn hlýtt og hæðasvæði í sunnanverðri Evrópu. Þetta snýst meira um hvort lægðirnar séu hjá okkur eða í Skandinavíu,“ segir Helga sem gerir ekki ráð fyrir því að við fáum „afganga“ af mildu lofti til okkar í næstu viku, enda gera spár ekki ráð fyrir miklum hita hér.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert