Kalla eftir tvöföldun Reykjanesbrautar

Umferðin við Setberg fer öll um eitt hringtorg með tveimur …
Umferðin við Setberg fer öll um eitt hringtorg með tveimur akreinum og um það fara að meðaltali 47.300 bílar á dag. ljósmynd/Hafnarfjarðarbær

Mikilvægt er að mörkuð sé heildarstefna fyrir framkvæmdir við Reykjanesbraut innan Hafnarfjarðar, þar sem tímasetning framkvæmda er ákveðin og fjármagn tryggt. Þetta kom fram á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í gær, en þar var minnisblað vegna samgöngumála lagt fram.

Þá lagði bæjarstjórnin fram bókun þar sem skorað er á alþingismenn kjördæmisins að tryggja að fjármagn fáist á fjárlögum 2018 og árunum þar á eftir til að ljúka framkvæmdum við Reykjanesbraut innan Hafnarfjarðar. Óskað er eftir viðræðum við ráðherra og alþingismenn hið fyrsta vegna þessa brýna öryggis- og hagsmunamáls. 

Í dag er hafin vinna við gerð mislægra gatnamóta við Krýsuvíkurveg en aðrar framkvæmdir eru ekki komnar í undirbúning. Samkvæmt vegaáætlun eru framkvæmdir við Reykjanesbraut frá Vogum að Kaldárselsvegi hugsaðar á árunum 2015-2022 en breikkun á Reykjanesbraut frá Kaldárselsvegi að Álftanesvegi er ekki að sjá á áætlunum ríkisins.

„Þegar heildarfjármagn til vegaframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu er skoðað er ljóst að framkvæmdir þar hafa verið af mjög skornum skammti undanfarin ár. Þar hefur Hafnarfjörður setið eftir þrátt fyrir að tölur yfir umferðarþunga sýni m.a. að umferðarmagn við Setberg í Hafnarfirði er að nálgast mjög umferðarmagn í Ártúnsbrekku per akrein. Umferðin við Setberg fer öll um eitt hringtorg með tveimur akreinum og um það fara að meðaltali 47.300 bílar á dag,“ segir í tilkynningu frá bæjarstjórninni.

Þar kemur jafnframt fram að íbúar séu í auknum mæli búnir að gefast upp á notkun hringtorgsins og hafi það leitt af sér aukinn og óæskilegan umferðaþunga og hraða innan íbúðahverfa. Brýnt sé að tryggja umferðaröryggi á þessum kafla frá Krýsuvíkurvegi að Álftanesvegi.

„Mikil þörf er á að endurnýja gatnamótin við Kaplakrika sem og við Lækjargötu og sýna tölur yfir slysatíðni og umferðarþunga glöggt að þau eru löngu sprungin. Hringtorgið við Lækjargötu/Setberg, Hlíðartorg, var hugsað sem bráðabirgðalausn á sínum tíma og þá strax ljóst að það myndi ekki anna umferð,“ segir í tilkynningunni. Bæði gatnamótin séu í 5. og 6. sæti yfir slysamestu gatnamót í þéttbýli á Íslandi í ársskýrslu slysaskráningar Samgöngustofu 2015 og í 1. og 2. sæti þegar slysamestu hringtorgin á höfuðborgarsvæðinu eru skoðuð. 

„Á 3,5 kílómetra vegakafla frá Kaldárselsvegi að Krýsuvíkurvegi voru slysin rúmlega 100 talsins árið 2015 sem gefur gildið 28 slys á hvern kílómetra. Samhliða vaxandi fjölda ferðamanna í umferðinni hefur íbúum Hafnarfjarðar fjölgað sem og starfsmönnum í stækkandi íbúa- og atvinnubyggð Vallahverfis. Þessar staðreyndir kalla á tvöföldun Reykjanesbrautar í gegnum bæinn áður en fleiri alvarleg slys verða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert