Katrín Jakobs föst á Kastrup

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við bara sitjum hér og búin að koma okkur vel fyrir, bara eins og við séum heima hjá okkur,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, í samtali við mbl.is. Katrín er meðal þeirra farþega sem eru á leið heim frá Kaupmannahöfn en þurfa að bíða á Kastrup-flugvelli í fleiri klukkutíma eftir komu vélar Icelandair sem seinkaði frá Íslandi.

Vegna óhapps sem varð rétt um það leyti sem vélin átti að fara í loftið frá Keflavík klukkan 13:00 dag þurfti að seinka vélinni sem fyrst nú um klukkan átta er að leggja af stað til Kaupmannahafnar. Á meðan bíða þeir sem áttu flug með vélinni til baka á Kastrup en fluginu til baka var seinkað frá klukkan 19:45 til klukkan tvö í nótt að staðartíma í Danmörku.

„Við komum hérna einhvern tímann um sexleytið og hún á að fara héðan klukkan tvö í nótt,“ segir Katrín, sem þurfti að sækja fund í Kaupmannahöfn en sonur hennar er einnig með í för. „Ég vona að hún komi og að þetta verði í lagi bara,“ bætir Katrín við hlæjandi en hún kveðst ekki hafa miklar áhyggjur af seinkuninni.

„Ég er bara að lesa mjög athyglisverða bók, ég er alveg búin að birgja mig upp af bókum,“ segir Katrín. Hún hafði rekist á nokkra Íslendinga á Kastrup sem flestir virtust ósköp rólegir yfir að þurfa að bíða. „Við erum bara búin að fylgjast spennt með þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert