Krefjandi leið fram undan

Veðrið var heldur búið að skána fyrir austan í dag …
Veðrið var heldur búið að skána fyrir austan í dag og Jón Óli hjólar ótrauður áfram. Ljósmynd/Þór Bæring Ólafsson

Jón Óli Ólafsson, einn keppenda í einstaklingsflokki WOW Cyclothon, hjólar nú yfir Öxi eftir erfiða nótt að baki. Mikil rigning og mótvindur gerði keppendum erfitt fyrir en veður fer nú batnandi. 

Um hádegi í dag var hann nýlagður af stað í þetta krefjandi verkefni sem bíður hans en vegurinn um Öxi er malarvegur.  Áður en hann gat haldið áfram þurfti hann því fyrst að skipta götuhjólinu út fyrir fjallahjól. Á eftir honum fylgir keppandinn Michael Glass sem er honum samferða á Öxi.

Þeir Jón Óli, Michael Glass og Jakub Dovrák voru fyrr í dag staddir saman á Egilsstöðum en Jón Bæring Ólafsson, talsmaður Jóns Óla, segir að það sé mjög góð stemning á milli þeirra. Fór Jakub fram úr þeim og er nú í öðru sæti á eftir Peter Coljin sem hefur forystuna.

„Við erum kannski komnir aðeins á eftir áætlun en við vonumst til að ná því upp eftir Öxi að komast aðeins hraðar,“ segir Jón Bæring Ólafsson, einn stuðningsmannanna á bak við Jón Óla, en tímarammi keppenda í einstaklingsflokki er til klukkan sex á laugardagsmorgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert