Kvíði stúlkna flyst yfir á fullorðinsár

Ungar íslenskar konur og stúlkur virðast frekar upplifa kvíða og …
Ungar íslenskar konur og stúlkur virðast frekar upplifa kvíða og þunglyndi en jafnöldrur þeirra í nágrannaríkjunum. AFP

Rúm 22 prósent íslenskra barna á aldrinum 11 til 15 ára upplifir tvö eða fleiri einkenni geðræns vanda, þar á meðal kvíða, oftar en einu sinni í viku. Þessar upplýsingar koma fram í nýrri skýrslu UNICEF um stöðu barna í efnameiri ríkjum. Vandamálið einskorðast þó ekki við börn og unglinga, enda sýna nýlegar rannsóknir fram á að sérstaklega hátt hlutfall íslenskra kvenna á aldrinum 15 til 24 ára glímir við þunglyndi og kvíða.

Í heild­ina litið er Ísland í sjötta sæti af 41 ríki Evr­óp­sam­bands­ins og OECD-ríkja yfir al­menna stöðu barna í efnamiklum ríkjum, en 41 ríki voru borin saman. Í skýrsl­unni er lögð áhersla á þau tíu heims­mark­mið sem eru tal­in mik­il­væg­ust fyr­ir vel­ferð barna, en meðal þeirra er að binda enda á fá­tækt og hung­ur, tryggja heil­brigði og gæðamennt­un og auka jöfnuð.

Ekki tímabundið vandamál

Þrátt fyrir að vera ofarlega á lista samanborið við aðrar þjóðir, er Ísland neðar en við erum vön vera sjá á sambærilegum listum. Sé litið til heilsu og líðan barna er Ísland heilt yfir í öðru sæti, en í undirflokknum sem tekur til geðheilbrigði erum við í 15. sæti.

„Þegar ég sé þessar tölur þá staldra ég við og segi að hér sé eitthvað sem þarf að laga. Þegar unglingsstúlkurnar okkar eru að greinast með kvíða og þunglyndisvandamál og ungu konurnar okkar líka, þá er eitthvað sem skilar sér áfram. Við getum ekki sagt að þetta sé tímabundið vandamál. Það skiptir gríðarlegu máli að horfast í augu við vandann, greina hann og leysa,“ sagði Kolbeinn Hólmar Stefánsson, sérfræðingur hjá Hagstofu Íslands, sem hélt framsögu á fundi UNICEF sem fór fram í Háskóla Íslands í dag. Fundurinn bar yfirskriftina: Geta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna bætt stöðu barna á Íslandi?

Bergsteinn telur að hluta vandans megi leysa með góðum samskiptum.
Bergsteinn telur að hluta vandans megi leysa með góðum samskiptum. Aðsend mynd

„Niðurstöður hjá rannsóknum og greiningu sýna fram á að kvíðavandamál hjá ungum stúlkum er að aukast mjög hratt. Þetta er víðtækara vandamál því í vor birti Hagstofan niðurstöður úr heilsufarsrannsókn og þar kom í ljós að sérstaklega hátt hlutfall kvenna á aldrinum 15 til 24 ára upplifir þunglyndiseinkenni, ef við berum okkur saman við Evrópu. Þessi gögn kallast á og benda til þess að eitthvað þarf að athuga. Ef við ætlum bara að vera sátt við annað sætið í heilsu og líðan, þá erum við að missa af mikilvægum þáttum,“ sagði Kolbeinn jafnframt á fundinum og benti á mikilvægi þess að greina gögnin enn frekar.

Leitum samráðs við börnin

Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, tók undir með Kolbeini og sagði að sér þætti sem kerfin væru ekki að tala saman í þessu máli. Hann sagði jafnframt mikilvægt að nýta þessar tölur til að reyna að greina vandann. „Við eigum að nýta okkur þessar tölur til að eggja okkur áfram í að rannsaka málið betur og í grunninn. Það eru mjög mismunandi þættir sem gætu verið valdir að þessu. Það er alveg jafn mikilvægt að komast að þeim öllum. Þetta getur legið í samfélagsgerð okkar, væntingum samfélagsins í dag, í hraða, samverustundum með fjölskyldu, eða hvernig samfélag okkar lítur á kyn og kynhlutverk. Það eru margir þættir að baki, en mjög mikilvægt að skoða þá sem flesta og komast að einhverri skýrri mynd.“

Bergsteinn segir UNICEF nú þegar hafa farið af stað í vinnu til að reyna að sporna við kvíðaeinkennum og þunglyndi barna og unglinga. „Við teljum að það sé hægt leysa margt með samskiptum. Þess vegna höfum við hafið þá vegferð sem heitir Réttindaskólinn, þar sem barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er lagður til grundvallar í skólastarfi. Þannig að barnasáttmálinn sé innleiddur, ekki bara lagalega og pólitískt, heldur uppeldisfræðilega. Að við venjum okkur á að leita samráðs við börnin og að það ríki gagnkvæm virðing á milli barna og fullorðinna þegar kemur að sjálfsögðum mannréttindum. Við höldum að þetta geti leyst hluta af þessu vandamáli, sem er auðvitað mun stærra og helgast af mörgum þáttum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert