Mörg börn glíma við geðrænan vanda

Ísland stendur vel að vígi í flestum mælingum UNICEF á …
Ísland stendur vel að vígi í flestum mælingum UNICEF á stöðu barna í efnameiri ríkjum. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Tæpur fjórðungur íslenskra barna á aldrinum 11-15 ára upplifir tvö eða fleiri einkenni geðræns vanda oftar en einu sinni í viku. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu UNICEF um stöðu barna í efnameiri ríkjum í ljósi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Ísland stendur vel að vígi í flestum mælingum, samkvæmt upplýsingum frá UNICEF. 

„Náðst hefur góður árangur við að auka jöfnuð meðal barnafjölskyldna, samkvæmt nýrri skýrslu UNICEF um stöðu barna í efnameiri ríkjum í samhengi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Ísland stendur ekki jafnvel að vígi ef litið er til geðheilbrigði barna, menntunarárangurs eða umhverfisvitundar þeirra. Tæpur fjórðungur íslenskra barna á aldrinum 11-15 ára upplifir tvö eða fleiri einkenni geðræns vanda oftar en einu sinni í viku,“ segir í tilkynningu frá UNICEF.

Ísland í sjötta sæti

Á heildina litið er Ísland í sjötta sæti af 41 ríki Evrópsambandsins og OECD-ríkja yfir almenna stöðu barna en borin var saman staða barna í 41 efnamiklu ríki. Mestum árangri hefur Ísland náð í að tryggja markmið um aukinn jöfnuð og um frið, réttlæti og sterkar stofnanir. Verst stendur Ísland hvað varðar markmið um ábyrga neyslu og framleiðslu og ræður þar mestu mæling á umhverfisvitund barna, sem er undir meðallagi.

Á Íslandi búa tíu prósent barna við hlutfallslega fátækt, sem er annað lægsta hlutfallið sem mældist á eftir Danmörku. Þá búa 18 prósent barna við efnislegan skort, sem er fimmta lægsta hlutfallið. Undir heimsmarkmiði um að tryggja heilsu og velferð mælist Ísland í öðru sæti og má rekja þann góða árangur til þess hve vel hefur gengið að minnka áfengisneyslu ungmenna og fækkunar ótímabærra þungana. Aftur á móti er árangur við að tryggja geðheilbrigði barna aðeins í meðallagi, en 22,5 prósent barna á aldrinum 11-15 ára sögðust upplifa tvö eða fleiri einkenni geðræns vanda oftar en einu sinni í viku.

Fátækt og geðræn vandamál barna

Eitt af hverjum fimm börnum í efnameiri ríkjum býr við hlutfallslega fátækt og að meðaltali eitt af hverjum átta börnum býr við fæðuóöryggi. Þá upplifir um fjórðungur barna í efnameiri ríkjum geðræn vandamál oftar en einu sinni í viku. Þetta kemur fram í skýrslunni Building the Future: Children and the Sustainable Development Goals in Rich Countries sem UNICEF gaf út fyrir skemmstu.

Skýrslunni er ætlað að leggja mat á og bera saman stöðu barna í efnameiri ríkjum með hliðsjón af þeim heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem talin eru mikilvægust fyrir velferð þeirra. Skýrslan er sú fjórtánda í Report Card-rannsóknarritröð Innocenti-rannsóknarmiðstöðvar UNICEF sem mælir velferð barna í efnameiri ríkjum heims. 

UNICEF, verkefnastjórn um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, Hagstofa Íslands og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands standa fyrir opnum fundi um heimsmarkmiðin og stöðu barna á Íslandi í Öskju 132 í Háskóla Íslands í dag frá kl. 12.00 til 13.15.

Háar tekjur leiða ekki sjálfkrafa til bættrar stöðu barna

„Skýrslan undirstrikar að börn njóta ekki öll góðs af velgengni efnameiri ríkja,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, í tilkynningu.

„Háar meðaltekjur ríkja leiða ekki sjálfkrafa til bættrar stöðu allra barna. Ríkisstjórnir allra landa þurfa að beita sér fyrir því að draga úr misskiptingu og tryggja að heimsmarkmið um sjálfbæra þróun náist fyrir öll börn.“

Í skýrslunni er lögð áhersla á þau tíu heimsmarkmið sem eru talin mikilvægust fyrir velferð barna. Meðal þeirra er að binda enda á fátækt og hungur, tryggja heilbrigði og gæðamenntun og auka jöfnuð. Borin var saman staða barna í 41 efnamiklu ríki.

Töluverður munur er á velferð barna milli ríkja. Þó er ljóst að rými er til framfara í öllum ríkjum, þar sem ekkert þeirra mældist framarlega á öllum sviðum. Í ríkustu löndunum má sérstaklega nefna þær aðkallandi áskoranir sem felast í vaxandi ójöfnuði, geðrænum vandamálum barna og yfirþyngd.

Í ljósi niðurstaðna skýrslunnar kallar UNICEF eftir því að ekkert barn sé skilið eftir – meðaltöl á landsvísu hylja oft ójöfnuð og slæma stöðu þeirra sem verst eru settir. Þá er mikilvægt að vinna markvisst að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og staðsetja börn miðlægt í þeirri vinnu, því velferð barna er grundvallarforsenda þess að hægt sé að ná auknum jöfnuði og sjálfbærni. Auk þess er mikilvægt að betrumbæta gagnaöflun um stöðu barna, til að auðvelda samanburð og aðgerðir í þágu velferðar þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert