Næsta hlaup tímaspursmál

Nýja berghlaupið fellur við hlið eldra hlaups og það vottar …
Nýja berghlaupið fellur við hlið eldra hlaups og það vottar fyrir ummerkjum um flóðbylgjuna vestast á myndinni. Ljósmynd/Eldfjallafræði og náttúruvárhópur Háskóla Íslands

Sérfræðingar telja það tímaspursmál hvenær næsta berghlaup verði á Grænlandi. Þegar fellur úr bergi á einum stað getur myndast óstöðugleiki í kring, segir Ingibjörg Jónsdóttir landfræðingur. 

Enn hefur ekki verið staðfest hvort það var jarðskjálfti sem olli berghlaupinu eða öfugt. Ingibjörg telur líkur á því að berghlaupið hafi komið skjálftanum af stað. „Það virðist mjög líklegt að skjálftinn hafi mælst út frá berghlaupinu en ekki öfugt,“ segir Ingibjörg í samtali við mbl.is.

Ingibjörg segir berghlaup á stöðum sem þessum ekki óvenjuleg. „Það er ákveðinn halli á jarðlögunum en á fyrri tíðum hefur átt sér stað jökulrof þarna svo hlíðarnar eru óstöðugar,“ segir Ingibjörg og bætir við að á gervitunglamyndum megi sjá að berghlaup hafi fallið áður á svæðinu.

Facebook síða Eldfjallafræði og náttúruvárhóps Háskóla Íslands birti gervitungamyndir af svæðinu með útskýringum og færsluna má sjá neðst í fréttinni. 

Tímaspursmál hvenær næsta berghlaup fellur

Ingibjörg segist skilja vel viðvaranir um það að annað berghlaup sé mögulegt, því þegar fellur úr bergi á einum stað getur myndast ákveðinn óstöðugleiki.

 „Það eru allavega tveir staðir sem vekja svolítinn ótta þegar horft er á myndirnar því hreinlega má sjá sprungur farnar að myndast, en ómögulegt er að spá fyrir um hvenær bergið muni falla,“ segir Ingibjörg. Erfitt er að spá fyrir um berghlaup og ekki er að sjá á fyrri myndum að bergið myndi hrynja nákvæmlega á þeim stað sem raunin varð, segir Ingibjörg. Ljóst er að hætta verður áfram á svæðinu en ekki er hægt að spá fyrir um hvenær næsta hlaup verður.

Þyrfti að vera mjög öflugt almannavarnakerfi

Al­manna­varn­ir Græn­lands hafa leitað til aðalræðis­skrif­stofu Íslands í Nuuk og óskað eft­ir aðstoð eða leiðbein­ing­um ís­lenskra jarðvís­inda­manna varðandi það hvernig hægt væri að koma upp sjálf­virk­um búnaði sem nota mætti til viðvör­un­ar ef frek­ari berg­hlaup yrðu á svæðinu.

Ingibjörg segir að rannsaka þurfi betur hvað sé raunhæft í þeim efnum. Þetta tiltekna berghlaup fellur út í sjó og ryður frá sér vatni sem ferðast á ógnarhraða. „Það þyrfti að vera rosalega öflugt kerfi vegna þess að þetta er svo ofboðslega stuttur tími,“ segir Ingibjörg.

Oddur Sigurðsson jarðfræðingur segir í samtali við Rúv að það sé einnig tímaspursmál hvenær verði stórt berghlaup á Íslandi, líkt og það sem varð á Grænlandi um helgina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert