Réðst á lögreglumenn með hnífi

Karlmaður var í gær dæmdur í átta mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur og sviptur ökuréttindum ævilangt fyrir brot gegn valdstjórninni, tilraun til sérstaklega hættulegrar líkamsárásar og umferðarlagabrot. Þá var maðurinn dæmdur til þess að greiða ríflega 2,5 milljónir króna í sakarkostnað. Þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem hljóðuðu upp á tæpa 1,7 milljónir króna.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa aðfaranótt 10. ágúst 2016 veist með ofbeldi og hótunum að tveimur lögreglumönnum á heimili hans sem þar voru við skyldustörf. Lögreglan mætti á staðinn vegna tilkynningar um mann sem væri vopnaður hnífi og með hótanir um sjálfsskaða. Tilkynnandinn hitti lögreglu á stigagangi hússins og sagði þeim að hurðin að íbúðinni væri opin og að maðurinn væri inni á baðherberginu. Blóð var á veggjum og gólfi íbúðarinnar við baðherbergið og inni á því þar sem maðurinn lá á nærbuxum og sokkum einum fata. Þegar lögreglumennirnir létu hann vita að um lögregluna væri að ræða og skipuðu honum að sleppa hnífnum brjálaðist hann að því er segir í dómnum og skipaði þeim að fara út.

Fram kemur í dómnum að maðurinn hafi komið út af baðherbergi íbúðarinnar vopnaður hnífi með 15 sm löngu blaði, gengið í átt að lögreglumönnunum og otað að þeim hnífnum og hótað þeim þannig líkamsmeiðingum og lífláti í verki. Þá hafi maðurinn hótað öðrum lögreglumanninum ítrekað lífláti og elt hann inn í stofu með hnífinn á lofti, sveiflað hnífnum í átt að lögreglumanninum og gert tilraun til þess að stinga hann með honum. Lögreglumaðurinn náði að verjast manninum með lögregluskildi sínum og með því að slá í hönd mannsins með lögreglukylfu sinni. Tókst að lokum að yfirbuga manninn og handjárna hann. Hann hafði veitt sjálfum sér ýmsa skurði með hnífnum.

Maðurinn gaf þá skýringu að hann hafi tekið inn efni kvöldið áður til þess að taka eigið líf. Hann ætti sér langa sögu geðrofssjúkdóma sem tengdust fíkniefnaneyslu fyrri ára. Sagðist hann lítið muna frá atburðarás næturinnar. Hann hafi ekki áttað sig á að um lögreglumenn væri að ræða heldur einungis séð stórar verur sem væru komnar inn í íbúðina. Mundi hann að mikil læti hafi átt sér stað og mikið verið öskrað. Lunga hans féll saman í átökunum og þurfti hann að vera í öndunarvél í 2-3 daga. Við skýrslutöku hjá lögreglu sagðist maðurinn kannast við að hafa veitt lögreglunni mótspyrnu. 

Lögreglumaðurinn sem maðurinn hótaði ítrekað og varð einn eftir í íbúðinni eftir að manninum tókst að loka hinn lögreglumanninn frammi á stigagangi sagðist fyrir dómi hafa fundist lífi sínu ógnað en hann hafi lent í ýmsu í störfum sínum og meðal annars starfað sem sérsveitarmaður. Farið hefði getað illa ef um hefði verið að ræða lögreglumann sem væri minna þjálfaður til þess að takast á við erfiðar aðstæður en hann.

Maðurinn var einnig ákærður fyrir að hafa gerst sekur um umferðarlagabrot aðfaranótt 9. júlí 2016, ekið bifreið sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis austur Bústaðaveg í Reykjavík þar til aksturinn hafi verið stöðvaður skömmu síðar á bifreiðastæði Skeljungs við veginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert