Sjálfstæðismenn efins um reiðufjárbann

Teitur Björn Einarsson t.v. og Óli Björn Kárason.
Teitur Björn Einarsson t.v. og Óli Björn Kárason. Samsett mynd

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, lýsir yfir efasemdum með hugmyndir tveggja starfshópa um að taka fimm og tíu þúsund króna seðla úr umferð og setja hámark á löglegar greiðslur fyrir vörur og þjónustu með reiðufé. „Það er meginregla að hér á Íslandi ríkir viðskiptafrelsi. Sé ekki hvernig við getum samræmt það að banna fólki að greiða fyrir viðskipti með ákveðnum hætti, þ.e. með reiðufé eða kortum, og að búa við viðskipta- og athafnafrelsi sem við höfum í hávegum haft,“ segir Óli Björn.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra kynnti hugmyndirnar á fundi í morgun og sagði ekki eftir neinu að bíða, frumvarp yrði lagt fram í haust til þess að fylgja eftir hugmyndum starfshópanna. 

Óli Björn segir menn að sjálfsögðu eiga að berjast gegn skattsvikum. „Það vita allir, en menn verða líka að gæta hófs í þeim aðferðum sem þeir nota,“ segir hann. „Við verðum að fara mjög varlega, þú getur ekki gengið að því vísu að alilr sem noti reiðufé séu skattsvikarar. Það eru ekki allir með greiðslukort, af ýmsum ástæðum. Til dæmis notar eldra fólk meira reiðufé en þeir sem yngri eru.“

Kolröng nálgun og galin hugmynd

Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir í færslu á Facebook-síðu sinni besta ráðið til að berjast gegn skattsvikum að hafa skattana lága og almenna, og skattkerfið skilvirkt og gegnsætt. 

„Að banna fólki að stunda viðskipti sín á milli með lögeyri útgefnum af ríkinu sjálfu er kolröng nálgun og hreinlega galin hugmynd,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert