Tvær ástralskar hælisumsóknir borist

Mynd af hælisumsókn sem Ihász birti á fjáröflunarvefn­um Go Fund …
Mynd af hælisumsókn sem Ihász birti á fjáröflunarvefn­um Go Fund Me Mynd/Go Found Me

Útlendingastofnun  staðfestir að tvær umsóknir ástralskra ríkisborgara um hæli hér á landi séu í vinnslu hjá stofnuninni. Þetta er í fyrsta sinn, að minnsta kosti síðastliðin þrjú ár, sem Ástralir sækja um hæli hér á landi.

Daily Telegraph greindi frá því í gær að ástralskt par, transkonan Ashley Ihász og unnusta hennar Stephanie McCart­hy, hafi sótt um hæli á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmið en þær segja að afstaða Ástr­ala í garð sam­kyn­hneigðra ógni lífi þeirra. Útlendingastofnun veitir engar upplýsingar um einstaka umsóknir og getur því ekki staðfest að áströlsku umsóknirnar tvær sem stofnuninni hafa borist í ár séu umsóknir þeirra Ihász og McCarthy.

Ekki er komin niðurstaða í málin en hælisumsóknir þessara tveggja Ástrala sem hafa borist Útlendingastofnun eru í vinnslu. „Mér er ekki kunnugt um aðrar umsóknir frá Áströlum hér á landi,“ segir Þórhildur Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar í samtali við mbl.is. „Ég hef ekki litið á tölfræðina mjög langt aftur í tímann en alla veganna síðustu þrjú ár hafa engar umsóknir verið frá Ástralíu,“ segir Þórhildur.

Allar umsóknir um hæli hér á landi eru meðhöndlaðar með sama hætti að sögn Þórhildar. Þegar farið er yfir umsóknir er athugað hvort fólk eigi rétt á alþjóðlegri vernd en þau skilyrði teljast t.a.m. uppfyllt ef í ljós kemur að fólk hafi orðið fyrir ofsóknum í heimalandi af hálfu stjórnvalda. Því næst kemur til álita hvort einstaklingar eigi rétt á viðbótarvernd, sem oft á við t.d. ef stríðsástand ríkir í heimalandi. „Ef hvorugt þessa á við þá er athugað líka hvort það geti verið að umsækjandi eigi rétt á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða,“ segir Þórhildur.

McCart­hy, sem er 45 ára göm­ul, varð fyr­ir of­beldi á krá fyr­ir tveim­ur árum en að sögn Ihász bár­ust þeim hót­an­ir af hálfu lög­reglu eft­ir árás­ina og þær ótt­ist um líf sitt að því er Daily Telegraph greinir frá. Ihász skrif­ar á síðu sína á fjáröflunarvefn­um Go Fund Me að Stephanie hafi ít­rekað verið ógnað af lög­reglu og hótað. Lög­regl­an neit­ar hins veg­ar ásök­un­um. 

Blaðamaður Daily Tel­egraph kveðst hafa rætt við parið sem búi tíma­bundið í Kefla­vík og bíður eft­ir svari frá Útlend­inga­stofn­un. Ihász vildi hins veg­ar ekki veita blaðinu viðtal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert