Brautarmet í B-flokki

mbl.is/Kristinn Magnússon

Um klukkan korter yfir sjö í morgun komu fyrstu lið í WOW Cyclothon í mark eftir æsispennandi endasprett tveggja fremstu liða.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Úrslit réðust fyrst í flokki B liða karla þar sem lið CCP kom í mark á tímanum 36:13:27 sem er nýtt brautarmet í WOW Cyclothon. Í öðru sæti  var liðið Zwift en þeir voru aðeins tæplega þremur mínútum eftir á, á tímanum 36:16:13, einnig undir gamla metinu. Voru þessi lið mjög jöfn fram að loka metrunum. Þau höfðu fylgst að mest alla keppnina í fremstu sætum og fögnuðu úrslitunum saman þegar í mark var komið.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Þriðja liðið í mark var lið Team TRI á tímanum 37:09:18 og sigraði þannig keppni blandaðra liða.

Í þriðja sæti í karlaflokki var liðið Team Orkan en keppnin um þriðja sætið var ekki minna spennandi en það um fyrsta, þar sem tvö lið fylgdust að og börðust um seinasta verðlaunasætið alveg fram á síðustu metra. Team Orkan kom í mark á tímanum 37:09:19 en í fjórða sæti var lið Whale Safari á 37:09:20. Keppni þessara liða, auk Team TRI, var mjög hörð og á endanum skildu aðeins tvær sekúndur þau að, segir í tilkynningu frá WOW.

Vegagerðin biður ökumenn að sýna sértaka aðgát og tillitsemi vegna keppninnar. „Þátttakendur hjóla nú um Suðurland og er farið frá Selfossi niður í Ölfus og svo um Suðurstrandarveg og Krýsuvíkurveg til Hafnarfjarðar. Mikilvægt er að vegfarendur sýni sérstaka aðgát og tillitsemi meðan svo margt hjólafólk er á ferðinni.“

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert