Farin til Los Angeles

Vélarbilunin varð til þess að ekki hefði tekist að lenda …
Vélarbilunin varð til þess að ekki hefði tekist að lenda á flugvellinum í Los Angeles fyrir miðnætti og seinkaði fluginu því meira en sem nam viðgerðartíma bilunarinnar. Ljósmynd/WOW air

Flugvél WOW air frá Keflavík til Los Angeles tók á loft klukkan 7:31 í morgun, rúmum hálfum sólarhring á eftir áætlun. Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, segir að smávægileg vélarbilun hafi komið upp.

Þar sem bannað er að lenda eða taka á loft frá LAX, flugvellinum í Los Angeles, frá miðnætti til klukkan sex á morgnana sökum nálægðar við íbúabyggð, varð seinkunin eins mikil og raun ber vitni, segir Svanhvít.

Hún segir að reynt hafi verið að koma farþegum fyrir á hótelum, en það hafi ekki tekist að koma öllum fyrir þar sem lítið hafi verið laust á hótelum við Keflavíkurflugvöll. Voru því eldri farþegar og fólk með ung börn í forgangi inn á hótel.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins greindi frá því í morgun að ástæða seinkunarinnar hefði verið skemmd á stéli vélarinnar, sem farþegi hafi komið auga á. Svanhvít segir það alrangt, heldur hafi komið upp vélarbilun eins og segir fyrr í fréttinni. Seinkunin mun hafa smávægileg áhrif á áætlanir WOW air í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert