Gögn yfir ofbeldi gegn börnum vannýtt

Mikilvægt að hægt sé að nýta gögn við áætlanagerð og …
Mikilvægt að hægt sé að nýta gögn við áætlanagerð og stefnumótun. mbl.is/Eggert

Ekki eru tölur frá Íslandi yfir kynferðislegt ofbeldi gagnvart stúlkum undir 15 ára í nýútkominni skýrslu UNICEF um stöðu barna í efnameiri ríkjum þar sem borin eru saman 41 ríki. Tölur vantar reyndar frá fleiri ríkjum hvað þetta varðar, en ástæðan fyrir því að tölur frá Íslandi eru ekki í skýrslunni, er sú að Íslendingar tóku ekki þátt í samanburðarrannsókn um þetta málefni.

Niðurstöðurnar sýna að 6 prósent evrópskra stúlkna verða kynferðisofbeldi af hálfu fullorðins einstaklings áður en þær ná 15 ára aldri. Alvarlegast er ástandið í Bretlandi og Lúxemborg þar sem 12 til 13 prósent stúlkna verða fyrir kynferðisofbeldi.

Þetta kom fram á fundi UNICEF sem fór fram í Háskóla Íslands í gær, og bar yfirskriftina: Geta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna bætt stöðu barna á Íslandi?Í skýrsl­unni er lögð áhersla á þau tíu heims­mark­mið sem eru tal­in mik­il­væg­ust fyr­ir vel­ferð barna. Meðal þeirra er að binda enda á fá­tækt og hung­ur, tryggja heil­brigði og gæðamennt­un og auka jöfnuð.

Verðum að vita hvar við stöndum

Á fundinum kom jafnframt fram að að til eru ýmsar tölur yfir ofbeldi gegn börnum gegn börnum á Íslandi sem ekki hafa verið nýttar sem skyldi. „Við eigum tölur yfir kynferðisofbeldi, ekki margar. En það er vert að benda á að það liggur mikið af lítið nýttum gögnum hjá Rannsóknum og greiningu, um allskonar ofbeldi gegn börnum. Þetta er vannýtt gagnasett sem þarf að draga fram í dagsljósið. Við höfum verið að hugsa um að halda áfram með ofbeldisskýrslu sem við birtum 2013, og ganga til samstarfs við þau og birta þessar greiningar,“ sagði Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á fundinum.

Bergsteinn segir engan einn aðila halda utan um tölfræði barna …
Bergsteinn segir engan einn aðila halda utan um tölfræði barna á Íslandi. Aðsend mynd

Ástæðan fyrir því að gögnin hafa ekki verið nýtt betur en er ella, er sú að það ber enginn ábyrgð á utanumhaldi þeirra. „Það ber enginn einn aðili ábyrgð á því að halda utan um tölfræði barna á Íslandi, og passa það að við fylgjumst vel með stöðunni á mörgum sviðum. Ofbeldismálin eru erfiður og þungur málaflokkur. Þessu hefur verið sinnt að einhverju leyti af félagasamtökum, en ekki skipulagt. Það vantar hins vegar klárlega reglulegar mælingar. Mælingar á umfangi og eðli. Ég veit að stjórnvöld eru með vinnu í gangi á milli fjögurra ráðuneyta um að búa til aðgerðaráætlun gegn ofbeldi á Íslandi, það er því mögulegt að það verði gerðar úrbætur á þessu,“ segir Bergsteinn í samtali við mbl.is.

Að hans mati er mjög mikilvægt að nýta gögnin betur. „Þetta þarf að liggja til grundvallar allra okkar stefnumótunar og áætlanagerðar, annars vitum við ekki hvar við stöndum eða hvert við erum að fara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert