Ímyndunaraflið eina takmarkið

Bjarni Örn Kristinsson.
Bjarni Örn Kristinsson.

Bjarni Örn Kristinsson er einn örfárra Íslendinga sem hafa lokið grunnnámi frá Massachusetts Institute of Technology (MIT) sem hefur verið talinn besti háskóli heims samkvæmt QS University Ranking.

Bjarni útskrifaðist þann 9. júní síðastliðinn með B.Sc. gráðu í flugvéla- og geimverkfræði (e. Aeronautical and Astronautical Engineering) frá skólanum.

Bjarni er aðeins 24 ára gamall og stefnir á mastersnám í haust við MIT.

Nám í sérflokki

„Ég byrjaði hérna heima í vélaverkfræðinni og var ágætlega sáttur með það en hafði það alltaf á tilfinningunni að mig langaði að fara út.

Þegar ég var í menntaskóla þá fór ég í skiptinám til Japan en það opnaði heiminn aðeins fyrir manni. Þar fékk ég það aðeins á tilfinninguna að það væri eitthvað stærra en Ísland sjálft.“

„Þegar ég var kominn inn í skólann þá þurfti ég að ákveða hvaða nám ég vildi fara í og þetta var það sem mér leist best á“ segir Bjarni en flugvéla- og geimverkfræði deild MIT hefur verið í fremstu röð frá stofnun hennar árið 1914 og er enn í dag talinn vera í sérflokki.

„Námið er í kjarnann vélaverkfræði með áherslu á flugvélar, dróna, gervihnetti og eldflaugar. Áherslan er á greiningu og hönnun þessaratækja og tóla“ segirBjarni og bætir við að námið geti verið mjög krefjandi.

„Það kostar um eina milljón íslenskra króna að senda eitt kíló upp í geiminn“ segir Bjarni og því snýst námið hans mikið um að reyna að auka afköst og hámarka nýtni.

Skólagjöld um 4,8 milljónir króna

Bjarni segir námið í Bandaríkjunum vera allt öðruvísi en á Íslandi. „Til dæmis við útskriftina núna þá voru um 2800 útskriftarnemar og tók athöfnin því um fjórar klukkustundir. Tim Cook, forstjóri Apple,var fenginn til þess að halda hvatningarræðu og allir viðstaddir þurftu að fara í gegnum öryggishlið til þess að komast inn á svæðið.“

Skólagjöldin eru um 4,8 milljónir íslenskra króna ári og hækka með hverju ári segir Bjarni en sem námsmaður má hann aðeins vinna 20 klukkustundir á viku og verður það að vera á skólalóðinni.

Framtíðin alveg óákveðin

„Það verður líklega bara eitthvað sem dúkkar upp þegar að því kemur“ segir Bjarni og hlær er hann er spurður hver framtíðarplön hans séu.

Bjarni segir það vera mjög erfitt fyrir útlending að fá vinnu í þessum geira í Bandaríkjunum. „Bandaríkjamenn telja það í rauninni vera þjóðaröryggiseign að standa framarlega í hönnun á flugvélum og gervihnöttum, einnig eru þeir hræddir um að tapa tækninni sem þeir hafa fjármagnað til annarra landa. Ég þarf í rauninni því að fá bandarískan ríkisborgararétt til þess að fá að vinna þar eða verameð mjög sérhæfða þekkingu í einhverju sem þeir eru að leitast eftir.“

Bjarni segist alveg eins geta hugsað sér að vinna í Evrópu. „Eftir þriggja ára nám í Boston þá elska ég evrópska stílinn og sjarman sem sést á hverju götuhorni.“

Bjarni segir lykilinn vera að trúa á sjálfan sig og gefast ekki upp, „hvernig sem á móti blæs og þá er ímyndunaraflið þitt eina takmarkið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert