Kjúklingaþjófur dæmdur í fangelsi

Frá Héraðsdómi Reykjavíkur. Dómstóllinn dæmdi tæplega þrítugan karlmann í 18 …
Frá Héraðsdómi Reykjavíkur. Dómstóllinn dæmdi tæplega þrítugan karlmann í 18 mánaða fangelsi en hann hafði ítrekað stolið kjúklingabringum úr verslunum og gerst brotlegur við umferðarlög. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Tæplega þrítugur karlmaður hefur verið dæmdur í 18 mánaða fangelsi og sviptur ökuréttindum ævilangt fyrir á annan tug þjófnaðar- og umferðarlagabrota. Fyrsta brotið var vorið 2016 en flest brotanna voru framin frá september í fyrra fram til maí á þessu ári.

Þjófnaðarbrotin eru níu talsins en í átta skipti af þeim níu stal hann kjúklingabringum. Hann var tekinn þrisvar sinnum drukkinn undir stýri án ökuréttinda til viðbótar við þrjú skipti sem hann var tekinn allsgáður en próflaus undir stýri.

Hinn 15. apríl 2015 var hann dæmdur í 90 daga fangelsi fyrir þjófnað og umferðarlagabrot og var hann jafnframt sviptur ökurétti í 5 ár. Hinn 23. september 2015 var maðurinn að nýju fundinn sekur um umferðarlagabrot og þjófnað og var honum dæmdur hegningarauki við fyrrgreindan dóm og gert að sæta fangelsi í 45 daga.

Þá var hann dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir brot gegn umferðarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og almennum hegningarlögum með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 3. mars 2017. Refsingunni sem manninum er gert að sæta með dómi héraðsdóms á miðvikudag er hegningarauki við þann dóm sem kveðinn var upp í mars.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að maðurinn hafi játað brotin skýlaust, en hann á sér nokkurn sakaferil að baki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert