Kúnstin að auðga útilíf fjölskyldunnar

Útilífsbók fjölskyldunnar.
Útilífsbók fjölskyldunnar.

Þær hafa brennandi áhuga og ástríðu fyrir útivist. Áhugi Pálínu Óskar Hraundal hverfist um útilíf fjölskyldunnar í hversdagsleikanum, en háfjallamennska og krefjandi gönguferðir hafa heillað Vilborgu Örnu Gissurardóttur. Báðar eru þaulreyndir útivistargarpar sem miðla úr þekkingarbrunni sínum um allt milli himins og jarðar sem lýtur að útiveru og hollum lífsháttum í Útilífsbók fjölskyldunnar.

Pálína Ósk Hraundal.
Pálína Ósk Hraundal.

Rússíbanabraut fyrir gosflöskur, köngulóarvefjarþraut, náttúrubingó í útiafmæli, perlufesti úr berjum, appelsína með súkkulaði við opinn eld. Kannast lesendur við fyrirbærin, eða komið þið kannski alveg af fjöllum? Þetta eru aðeins örfáar hugmyndir að fjölmörgu skemmtilegu sem fjölskyldur geta gert í sameiningu til að auðga sitt líf – útilíf. Og þær er að finna í nýútkominni bók vinkvennanna og ferðamálafræðinganna Pálínu Óskar Hraundal og Vilborgar Örnu Gissurardóttur. Útilífsbók fjölskyldunnar nefnist hún og fjallar um allt milli himins og jarðar, sem lýtur að útiveru og heilbrigðum lífsháttum. Gagn og gaman í bland.

Vilborg Arna Gissurardóttir.
Vilborg Arna Gissurardóttir.

„Við kynntumst og urðum strax góðar vinkonur í Háskólanum á Hólum í Hjaltadal, þegar við vorum í BA-námi í ferðamálafræði á árunum 2005 til 2008. Síðan höfum verið í miklu sambandi, þótt ég hafi flust til Osló fljótlega eftir útskrift og Vilborg Arna búi í Hafnarfirði milli þess sem hún er í fjallabrölti og gönguferðum út um allar trissur,“ segir Pálína Ósk, sem er viðskiptastjóri fyrir ferðaskrifstofuna Norway Tours hjá Terra Nova.

Áhugi og ástríða

Báðar hafa brennandi áhuga og ástríðu fyrir útivist, en þó á ólíkum forsendum. Pálína Ósk segir áhuga sinn aðallega hverfast um útilíf fjölskyldunnar í hversdagsleikanum og fjölbreytt viðfangsefni sem stuðla að gefandi samverustundum allan ársins hring. Háfjallamennska og krefjandi gönguferðir hafa hins vegar heillað Vilborgu Örnu, sem gekk ein síns liðs á suðurpólinn um árið og var fyrst íslenskra kvenna til að komast á tind Everest í liðnum mánuði. Þótt Pálína Ósk hafi ekki klifið heimsins hæsta fjall, er hún líka þaulreyndur útivistargarpur.

„Okkur langaði að skrifa bók sem fjallaði um útivist sem lífsstíl fjölskyldunnar, gefa hagnýt ráð varðandi göngu- og fjallaferðir, útilegur, ferðabúnað og koma jafnframt með tillögur að leikjum og ýmsu sem hægt er að gera sér til dundurs og skemmtunar á ferðalögum eða bara utandyra í sínu nánasta umhverfi.“

Þær hófust handa fyrir þremur árum og ákváðu að skipta bókinni í tíu kafla. Í stórum dráttum snerist verkaskiptingin um að hvor um sig skrifaði kafla um sitt áhugasvið; Vilborg Arna um göngu- og fjallaferðir, tæknileg atriði, þjóðgarða og ferðaútbúnað, en Pálína Ósk um leiki, náttúruföndur og aðra afþreyingu úti í náttúrunni. Á víð og dreif eru svo fróðleiksmolar frá báðum um náttúru og dýralíf og í lokin reynslusögur barna og fullorðinna um ferðalög og krefjandi útivist.

Sjálfum sér til gleði og ánægju sem og einnig í þágu bókarinnar ákváðu Pálína Ósk og maður hennar, Ísak Sigurjón Einarsson, tölvunarfræðingur, í hittifyrra að skipuleggja sérstakar útistundir í hverri viku með Írisi, 12 ára dóttur sinni. Og vinum hennar og vinkonum ef svo bar undir.

Þeim finnst rigningin líka góð

„Útivist hefur alltaf verið okkar lífsstíll. Við náðum því markmiði sem við höfðum sett okkur að eiga saman 123 útivistarstundir á árinu og töldum allt með; hálftíma gönguferðir í nágrenninu sem og helgarútilegur. Við prófuðum alls konar leiki, föndruðum og elduðum yfir opnum eldi svo eitthvað sé nefnt. Þannig keyrðum við aðferðafræðina í gegn með trukki. Sumt rataði í bókina, annað ekki, enda var af mörgu að taka.

Litla fjölskyldan hefur ekki slegið slöku við þótt útistundirnar séu ekki lengur færðar til bókar. Hún er uppátækjasöm í meira lagi og lætur hvorki rok og rigningu né kulda og myrkur slá sig út af laginu. „Við höfum alltaf lagt mikið upp úr því að láta veðrið ekki stoppa okkur. Einu sinni héldum við upp á afmæli Írisar úti í skógi í fimmtán stiga frosti og börnin skemmtu sér hið besta í alls konar leikjum. Aðalatriðið er að klæða sig eftir veðri og kenna krökkum aðferðir til að hafa ofan af fyrir sér hvernig sem viðrar. Það getur vissulega verið krefjandi, en að sama skapi oft bæði gaman og eftirminnilegt,“ segir Pálína Ósk.

Í formála Útilífsbókar fjölskyldunnar segir m.a.: „Besta þjálfun fjölskyldunnar er þegar hún tekur ekki eftir því að hún sé í raun og veru í þjálfun – þegar upplifunin skyggir á erfiðið. Rétt eins og Pálína Ósk og fjölskylda hafa oft fundið á eigin skinni. Að minnsta kosti þótti Írisi mikið ævintýri einu sinni um hávetur þegar þau fóru út í skóg, elduðu sér mat og foreldrarnir hjálpuðu henni við heimanámið þar sem þau sátu og yljuðu sér við eldinn. „Tiltækið hljómar kannski svolítið öfgakennt, en sýnir bara hvernig njóta má útilífsins með margvíslegum hætti – og leggja um leið inn í minningabanka fjölskyldunnar,“ segir Pálína Ósk og bætir við að öll hafi þau að venju komið heim endurnærð á líkama og sál.

Útivistarmenning og fjölskyldustemning

Þau eru vel í sveit sett, búa steinsnar frá víðfeðmu og skógi vöxnu útivistarsvæði þar sem jafnan er margt um manninn. „Hér er mikil útivistarmenning og fjölskyldustemning. Norðmenn eru mjög uppteknir af íþróttum og útileikjum, sem öll fjölskyldan tekur þátt í, og leggja áherslu á mikilvægi útivistar í leikskólum, grunnskólum og upp úr. Börn eru varla búin að læra að ganga þegar þau fara að renna sér á skíðum.“

Ísak Sigurjón, Pálína Ósk og Íris.
Ísak Sigurjón, Pálína Ósk og Íris.

Þannig var því farið með Írisi. Pálína Ósk býst ekki við að sonurinn, sem enn hefur ekki litið dagsins ljós, en von er á á hverri stundu, verði eftirbátur systur sinnar. Hann fái örugglega samskonar útivistaruppeldi – samkvæmt bókinni.

Pálína Ósk segir að samstarf þeirra Vilborgar Örnu hafi gengið ljómandi vel eins og við var að búast hjá svona góðum vinkonum. Báðar hafi lært heilmikið á þessum þremur árum sem þær unnu að bókinni. „Ég er sannfærð um að þetta langa ferli hafi styrkt bókina. Ef okkur fannst eitthvað ekki ganga upp, gáfum við okkur tíma til að endurmeta stöðuna og gerðum einfaldlega nýtt plan. Stundum hafði líka önnur meira að gera en hin, en við fundum alltaf lausnir. Eins og útivistarfólk gerir ævinlega,“ segir hún brosandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert