Óverulegt tjón á húsnæði Hrafnistu

Hrafnista í Hafnarfirði.
Hrafnista í Hafnarfirði. ljósmynd/Sverrir Vilhelmsson

Engin slys urðu á fólki og óverulegt tjón varð á húsnæði Hrafnistu í Hafnarfirði þegar eldur kom upp í þaki öldrunarheimilisins í dag. Endurnýjun stendur yfir á þaki hússins, og kom eldurinn upp vegna viðhaldsframkvæmda. 

Greiðlega gekk að slökkva eld­inn en verktaki þaksins var að mestu búinn að ráða niðurlögum eldsins þegar slökkvilið bar að garði. Í öryggisskyni var hluti hússins rýmdur í rúmlega 15 mínútur og gekk það ferli mjög vel. 

Við slökkvistarf rann vatn niður á gang og nokkur reykjalykt var á efstu hæð hússins, en ekki varð meiri röskun af eldinum. Slökkvilið hefur nú farið með hitamyndavél yfir húsið og mun fylgjast með vettvangi í dag. Dagleg starfsemi var um hádegisbil komin í eðlilegt horf.

Hrafnista er stærsta öldrunarheimili landsins, en þar búa 214 manns auk þess sem 26 dagdvalarrými eru fyrir aldraða í húsinu.

„Hrafnista vill nota þetta tækifæri og þakka slökkviliði, lögreglu og starfsfólki Hrafnistu fyrir snörp og markviss vinnubrögð í þessum erfiðu aðstæðum. Jafnframt biðjum við íbúa Hrafnistu og aðstandendur þeirra velvirðingar á þeim óþægindum sem þeir kunna að hafa orðið fyrir,“ segir í tilkynningu frá Hrafnistu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert