Segir borgina ekki brjóta samning

Beðið eftir strætó í rigningunni. Fyrirtækið sem á öll biðskýli …
Beðið eftir strætó í rigningunni. Fyrirtækið sem á öll biðskýli borgarinnar hótar að fjarlægja þau vegna meints brots Reykjavíkurborgar á samkomulagi þeirra á milli. Borgarlögmaður hafnar því að Reykjavíkurborg hafi brotið á samningnum. mbl.is/Golli

Borgarlögmaður telur Reykjavíkurborg ekki brjóta gegn samningi við AFA JCDecaux, sem á og rekur biðskýli borgarinnar, með því að heimila WOW air að auglýsa þjónustu fyrirtækisins á auglýsingaskiltum sem standa við hjólastöðvar WOW citybike sem eru á víð og dreif um borgina.

Fyrr í dag greindi mbl.is frá því að lögmaður JCDecaux hefði sent borgarlögmanni bréf og krafist úrbóta vegna þess að auglýsingaskilti WOW air væru innan 50 metra radíuss frá biðskýlum en í samkomulagi milli fyrirtækisins og borgarinnar segir að ekkert auglýsingaskilti megi vera í 50 metra fjarlægð frá biðskýlunum.

Kristbjörg Stephensen borgarlögmaður staðfestir að bréfið hafi borist henni en ekki sé búið að svara því. Hún segir borgina ekki vera að brjóta á samningnum þar sem WOW air sé ekki að auglýsa þjónustu þriðja aðila heldur séu þetta upplýsingaskilti þar sem þjónusta félagsins er auglýst.

„Viðkomandi er bara að upplýsa um þá þjónustu sem hann rekur. Hann reyndar rekur einnig flugfélag, en það er eins og það er,“ segir Kristbjörg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert