Söfnunin nálgast 20 milljónir

mbl.is/Eggert

Rúmlega 19 milljónir króna hafa safnast á fjórum dögum í landssöfnuninni Vinátta í verki sem efnt var til vegna hamfaranna á Grænlandi um síðustu helgi þar sem fjórir fórust og fjöldi fólks missti allt sitt. Þúsundir Íslendinga hafa lagt inn á söfnunarreikning eða hringt í styrktarsímann, og fyrirtæki, sveitarfélög, klúbbar og félagasamtök hafa tekið hressilega við sér.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá söfnuninni en þar segir ennfremur að fjárhæðirnar muni renna óskertar til Grænlands í þágu þeirra sem verst urðu úti. Kostnaður við söfnunina er enginn að sögn Hrafns Jökulssonar, talsmanns Vináttu í verki:

„Við lögðum upp með að eyða ekki krónu í auglýsingar, starfsfólk, síma eða nokkuð annað. Ekki svo mikið sem eitt einasta frímerki. Öll framlög fara óskert til Grænlands. Eitt 2.500 króna símtal skilar 2.500 krónum, svo einfalt er það. Við erum himinlifandi yfir viðbrögðum almennings og nú eru fyrirtækin og sveitarfélögin byrjuð að taka hressilega við sér."

Tilkynnt var í dag um tveggja milljóna króna framlag frá Eimskip og framlag upp á sömu upphæð frá útgerðafélaginu Brimi. Sveitarfélög hafa einnig komið sterk inn allt frá Árneshreppi til Reykjavíkurborgar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert