Táknmál í útrýmingarhættu

mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Íslenskt táknmál er í útrýmingarhættu, að mati Samtaka heyrnarlausra. Þetta segir Rannveig Sverrisdóttir, lektor í táknmálsfræðum við Háskóla Íslands. „Barni sem fæðist heyrnarlaust og fær ekki mál eða málsamfélag mun væntanlega ekki farnast vel í lífinu. Þó að þetta sé lítill hópur verðum við að hugsa um hvern og einn,“ segir hún.

Vitundarvakningar sé einnig þörf í atvinnulífinu um málefni heyrnarlausra.

Alþjóðleg táknmálsráðstefna fór fram í Reykjavík í vikunni. Saman voru komnir hátt í eitt hundrað fræðimenn sem vinna að táknmálsrannsóknum, flestir erlendir. Ráðstefnan fór fram á ensku og amerísku táknmáli (ASL), sem Rannveig segir vera nokkurs konar „ensku táknmálanna“. Einhverjir kynnu að halda að allir heyrnarlausir töluðu sama táknmálið, en svo er alls ekki. Fjölmörg ólík táknmál eru til í heiminum, hvert notað á sínu svæði, og þó að íbúar tveggja landa tali að jafnaði sama málið er ekki þar með sagt að táknmálið sé hið sama. Þannig nota Bretar og Bandaríkjamenn tvö ólík táknmál enda þróuðust málin hvort um sig.

Rannveig segir táknmál sjálfsprottin og þróast rétt eins og hvert annað tungumál. Elstu heimildir um íslenskt táknmál ná aftur til 1867 þegar skóli var stofnsettur fyrir heyrnarlausa. Fyrir þann tíma voru heyrnarlausir sendir í nám til Danmerkur. Fyrir vikið er íslenska táknmálið líkt því danska, þó að um tvö ólík mál sé að ræða. „Auðvitað væri þægilegt ef allir töluðu sama táknmálið. Það væri líka mjög auðvelt ef enskan væri alþjóðleg og töluð alls staðar,“ segir Rannveig.

Mikil fjölgun

Undanfarin ár hafa fáir skráð sig í nám í táknmálsfræðum, en um 20 manns nema nú fræðin við Háskóla Íslands og þrír útskrifast á morgun. En það birtir til því þess er vænst að deildin tvöfaldist nú í haust þegar 17 hefja nám. Margir táknmálsfræðingar starfa sem túlkar, en Rannveig segir einnig mikla þörf á táknmálsfræðingum með sérþekkingu á öðrum sviðum, svo sem í sálfræði, félagsfræði eða í skólakerfinu, þannig að ekki þurfi öll samskipti að fara í gegnum túlka. Hún segir táknmálsfræði ekki bara ganga út á kennslu í táknmáli heldur kynnist fólk líka menningarheimi heyrnarlausra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert