Þurfa að líta meira til annarra landa

Birgir Jakobsson landlæknir telur að líta megi til reynslu annarra …
Birgir Jakobsson landlæknir telur að líta megi til reynslu annarra þjóða í heilbrigðiskerfinu. mbl.is/Golli

Birgir Jakobsson landlæknir segir að stefnumörkun heilbrigðisráðuneytisins taki ekki á rót vanda heilbrigðiskerfisins. Ábyrgðin á kerfislægum vanda liggi alfarið hjá ráðuneytinu sem þurfi að líta í auknum mæli til reynslu annarra landa. 

Greint var frá er­indi Mark Brit­nells á Íslandi á mbl.is en hann hef­ur veitt ráðgjöf til heil­brigðis­yf­ir­valda um all­an heim. Britnell sagði að stefnumótin í heilbrigðismálum hér á landi væri ekki til þess fallin leysa kerfisbundinn vanda. Hann nefndi að heilbrigðisstofnanir væru of afmarkaðar og einangraðar, hér vantaði samfellu í kerfinu og líta mætti til reynslu annarra landa til þess að liðka samskipti milli stofnanna. 

„Það var litið til reynslu annarra landa með kerfisbreytinguna á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins sem virðist vera skref í rétta átt en að öðru leyti finnst mér alltof lítið hafa verið gert að draga lærdóm af því hvað er verið að gera á öðrum löndum, sérstaklega Norðurlöndunum,“ segir Birgir.

„Það ættu að vera hæg heimatökin því við erum nú þegar í mikilli norrænni samvinnu og ég er hissa á að við skulum ekki reyna að taka til fyrirmyndar margt af því sem þar er verið að gera.“

Höfuðborgin á eftir landsbyggðinni

Auk þess að brjóta múra milli stofnanna sagði Britnell að hann myndi end­ur­skipu­leggja fyrirkomulag hjúkrunar á öldruðum ef hann gegndi embætti heilbrigðisráðherra á Íslandi. 

Hann seg­ist hafa áttað sig bet­ur á því þegar hann var í heim­sókn á Land­spít­al­an­um þar sem hon­um var tjáð að þar biðu um 50-60 aldraðir sjúk­ling­ar sem hægt væri að sinna á öðrum stofn­un­um eða á heim­il­um þeirra. Birgir segir að höfuðborgarsvæðið sé á eftir landsbyggðinni þegar kemur að hjúkrun á öldruðum. 

„Þegar við berum okkur saman við nágrannalöndin erum við með hjúkrunarrými sem eru sambærileg og oft á tíðum betri en þeim er dálítið misskipt eftir landshlutum og höfuðborgarsvæðið hefur verið á eftir. Heimahjúkrun er líka misskipt, hún gengur misvel.“

Ábyrgðin alfarið hjá ráðuneytinu 

Spurður hverjir beri ábyrgð á því að taka á kerfisvandanum segir Birgir að hún liggi alfarið hjá ráðuneytinu, það sé ráðherra að setja stefnu og framfylgja henni. Hann telur ekki að núverandi stefnumörkun heilbrigðisráðherra ráðist á rót vandans.  

„Mér finnst ekki enn verið að gera það nema að verulega litlu leyti. Sagt er að það sé ekki ástæða til að breyta kerfinu sem slíku og þar er ég ekki sammála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert