Undirbúa stofnun Háskólaseturs Austfjarða

Guðný Hauksdóttir, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Alcoa Fjarðaáli, Páll Björgvin Guðmundsson, …
Guðný Hauksdóttir, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Alcoa Fjarðaáli, Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, og Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA, skrifa undir samkomulag um menntamál á Austfjörðum. Ljósmynd/Fjarðarbyggð

Fjarðabyggð hefur hafið samstarfi við fyrirtæki og stofnanir í sveitarfélaginu í þágu menntamála á Austfjörðum og er undirbúningur að stofnun Háskólaseturs Austfjarða stærsti þátturinn í því verkefni. Samstarfsaðilar komu saman í Tónlistarmiðstöð Austurlands í dag og undirrituðu samkomulag í menntamálum til tveggja ára að því er segir í tilkynningu frá Fjarðabyggð.

Samkomulagið kveður meðal annars á um skipan stýrihóps fyrir háskólaverkefnið en í því eiga sæti fulltrúar atvinnurekenda, rektor Háskólans á Akureyri og framkvæmdastjóri Austurbrúar ásamt fleirum. Samkomulagið nær einnig til grunnskóla- og framhaldsskólastigsins og munu þau verkefni byggja aðallega á þeim árangri sem sveitarfélagið hefur þegar náð í samstarfi við atvinnulífið í verknámi, tækninámi og nýsköpun að því er segir í tilkynningu.

Framkvæmdastjórar stærstu framleiðslufyrirtækja, verktaka- og þjónustufyrirtækja og stofnana í Fjarðabyggð hafa frá því seint á síðasta ári hist til að ræða sóknarfæri og áskoranir á Austurlandi. Frumkvæðið að viðræðunum átti Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, en um 85% af verðmætasköpun í landshlutanum fer fram í Fjarðabyggð að því er fram kemur í tilkynningunni. Að sögn Páls Björgvins leitaði hópurinn víða fanga í upplýsinga- og gagnaöflun en sú vinna leiddi í ljós að innspýtingar væri þörf í menntamálum.

Unga fólkið sjái hag sínum borgið í heimabyggð

„Við búum að tveimur frábærum framhaldsskólum; Verkmenntaskóla Austurlands og Menntaskólanum á Egilsstöðum. Með því að byggja upp nám á háskólastigi, sem kallast með gagnvirkum hætti á við þarfir atvinnulífsins og frekari atvinnuþróun, getum við treyst sjálfbærni samfélaganna hér á Austurlandi í sessi,“ segir Páll Björgvin um verkefnið.

„Framhaldsskólarnir munu einnig styrkjast og ný tækifæri myndast fyrir ungt menntafólk, en margt bendir til að aukið námsframboð á háskólastigi og öflugra háskólasamfélag sé mikilvæg forsenda þess að unga fólkið sjái hag sínum borgið í heimabyggð,“ segir Páll Björgvin enn fremur.

Fyrirmynd Háskólaseturs Austfjarða er sótt til Háskólaseturs Vestfjarða, sem skilað hefur góðum árangri á þeim rúma áratug sem setrið hefur starfað í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Páll segir það jafnframt meginástæðu þess að Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, taki sæti í stýrihópi háskólaverkefnisins.

Fyrsta verkefni stýrihópsins verður að ráða verkefnastjóra sem fær það verkefni að leiða undirbúning að stofnun Háskólaseturs Austfjarða. Verkefnið er til tveggja ára og hefur verið skipt upp í þrjá áfanga. Sjá má tilkynningu Fjarðarbyggðar í heild sinni hér.

Samkomulagið var undirritað í Tónlistarmiðstöð Austurlands í dag. Á myndinni …
Samkomulagið var undirritað í Tónlistarmiðstöð Austurlands í dag. Á myndinni eru þau Gunnþór Ingvason, SVN, Svava I. Sveinbjörnsdóttir, HSA, Elvar Jónsson, Verkmenntaskóla Austurlands, Þorsteinn Kristjánsson, Eskju, Guðný Hauksdóttir, Alcoa Fjarðaáli, Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri, Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA, Friðrik Mar Guðmundsson, LVF, Unnar Hjaltason, VHE, og Jóhann Eðvarð Benediktsson, Brammer á Íslandi. Ljósmynd/Fjarðarbyggð
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert