25 ára aldurstakmark í SKAM-partý

Ása Baldursdóttir og Dagbjört Hákonardóttir, stofnendur fullorðinsaðdáendaklúbbs SKAM á Íslandi.
Ása Baldursdóttir og Dagbjört Hákonardóttir, stofnendur fullorðinsaðdáendaklúbbs SKAM á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bíó Paradís heldur SKAM-fullorðinspartý til að fagna fjórðu og síðustu seríu norsku sjónvarpsþáttanna SKAM í kvöld. Í partýinu verður allra síðasti þátturinn frumsýndur. Til að komast inn í veisluna þarf að hafa skilríki enda er 25 ára lágmarksaldur. Þátturinn verður ekki með enskum texta. 

Ása Baldursdóttir, dagskrárstjóri Bíó Paradísar og einn stofnandi SKAM-fullorðinsaðdáendaklúbbsins, ræðir framtíð klúbbsins, segir frá dagskránni og óvæntum glaðningi. Hún víkur einnig að aldurtakmarki klúbbsins og biður fólk undir 25 ára um að mæta helst ekki heldur veita því skilning að fullorðið fólk sé komið saman til að djamma. 

Óvænt kveðja frá ástsælum hliðarkarakter

Veislan og sýningin eru haldin í samstarfi við RÚV, fullorðinsaðdáendaklúbb SKAM á Íslandi og norska sendiráðið. Ókeypis verður á þáttasýninguna en það kostar 1.000 krónur inn í partýið. Í boði verða norskar pizzur og norskt snakk. Veislan hefst með fordrykk í boði norska sendiráðsins. Að því loknu hefst sýning á síðasta þætti fjórðu seríu sem verður jafnframt allra síðasti þáttur SKAM.

Ása segir óvæntan glaðning munu vera eftir sýninguna þegar myndbandskveðja frá einum ástsælasta hliðarkarakter þáttanna, Eskild, verður sýnd. „Hann talar sérstaklega til klúbbsins á Íslandi og þetta verður frumsýnt í partýinu.“

Eftir sýninguna geta dyggustu SKAM-aðdáendurnir spreytt sig í „pub-quiz“-spurningakeppni. Vinningarnir í keppninni eru af ýmsum stærðum og gerðum en eiga það allir sameiginlegt að vera tengdir SKAM á einn eða annan hátt. Meðal annars má vinna svokallað „SKAM SAFARI“ í Ósló fyrir tvo. „Þú ferð með leiðsögumanni á tökustaði, færð upplýsingar, fróðleik og upplifun. Þú færð að kynnast unglingalífinu í þessum ríkari hluta Óslóborgar,“ segir Ása. Varalitur af sömu sort og Noora, ein vinsælasta persóna þáttanna, gengur með verður einnig í boði. „Það á enginn eftir að verða fyrir vonbrigðum,“ segir Ása.   

Norska sjónvarpsþáttaröðin Skam er fram­leidd­ af norska rík­is­út­varp­inu og fjallar …
Norska sjónvarpsþáttaröðin Skam er fram­leidd­ af norska rík­is­út­varp­inu og fjallar um líf ung­linga í Hart­vig Nis­sen-skól­an­um í einu af fínni hverf­um Ósló­ar. Á und­an­förn­um mánuðum hafa þeir náð óvænt­um og mikl­um vin­sæld­um á alþjóðavísu. Mynd/NRK

„Aðalmálið er að dansa“

Eftir spurningakeppnina verður dansað við lagalista SKAM sem aðdáendaklúbburinn hefur þróað úr öllum vinsælustu og bestu lögum þáttarins. Ása segir veisluna vera fullkomna fyrir útrás fullorðinna aðdáenda. „Ef að einhver vill labba inn í „slow motion“ eða mæta í búningi eða „russe-buss“ galla þá er það þeim velkomið. Aðalmálið er að við ætlum að dansa og skemmta okkur saman fram eftir.“

Ása segir fegurð SKAM-klúbbsins vera ástríðu félaganna. „Það sem er skemmtilegast við þetta er að það er bara fullt af miðaldra fólki, en í SKAM-heimi er 35 ára til dæmis afar miðaldra, sem eru að gera þetta út frá sinni eigin ástríðu.“

Verður ekki með enskum texta

Þátturinn verður ekki sýndur með enskum texta. „Venjulega er SKAM-þáttur sýndur á föstudagskvöldum í Noregi en út af ákveðinni trúardagsetningu hjá múslimum þá er hann frumsýndur í Noregi á laugardagskvöldi,“ segir Ása. Vegna þessa hefur kvikmyndahúsið ekki tíma til að texta þáttinn en norska ríkissjónvarpið sendir ekki út ensk handrit. „Allar sjónvarpsstöðvar sem sýna þáttinn fengu að vita þetta bara í gær. Þetta var bara tæknilegt vandamál sem var engum að kenna,“ segir Ása. 

Sana var í aðalhlutverki í fjórðu og seinustu seríu SKAM.
Sana var í aðalhlutverki í fjórðu og seinustu seríu SKAM. Mynd/ Af vef NRK

„Viljum bara einu sinni halda okkar eigið partý“

Ása fékk hugmyndina að hópnum í SKAM-fullorðinspartýi í Norræna húsinu. „Við vinirnir hlógum mikið að aldurslágmarkinu inn í klúbbinn. Við erum ekkert endilega að segjast vera svekkt yfir því að vera aldrei boðið í nein partý en staðreyndin er sú að okkur er aldrei boðið í partý. Ég er 35 ára og mér er aldrei boðið í nein svona partý,“

Ása segir klúbbinn ekki hafa neitt á móti unglingum enda fjalli SKAM um unglinga. „Við elskum unglingana í SKAM. En við viljum bara einu sinni halda okkar eigið partý,“ segir Ása og bætir við „auðvitað munum við kannski einhvern tímann leyfa unglingunum að vera með.“

Ása segist helst ekki vilja fá neinn undir 25 ára aldri í veisluna og biður um skilning. „Við ætlum ekki að fara að reka fólk út en við viljum bara biðja fólk um að veita því skilning að fullorðið fólk er að djamma saman.“

Allir spenntir yfir amerískri útgáfu 

Þrátt fyrir að norskri útgáfu SKAM sé lokið þá virðist klúbburinn vera með mörg járn í eldinum. Nú bíði hann eftir amerískri útgáfu þáttanna. „Allir í aðdáendaklúbbnum eru mega spenntir því þetta gæti annaðhvort verið mikið fall eða rosalegur sigur,“ segir Ása. „Það er örugglega erfiðast í heimi að yfirfæra ekki bara tungumálið heldur sjarmann og sérstöðu SKAM yfir á amerískt unglingasjónvarp því það er svo hlaðið steríótýpum og allur sá veruleiki er allt annar.“

Upplýsingar um viðburðinn á Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert