Stóru skemmtiferðarskipi snúið við

Um er að ræða 115 þúsund tonna skip með 3.096 …
Um er að ræða 115 þúsund tonna skip með 3.096 farþega innanborðs og 1.239 manna áhöfn. ljósmynd/Wikipedia

Stóru skemmtiferðarskipi sem koma átti í höfn í Reykjavík í dag var snúið við vegna veðurs. Um er að ræða 115 þúsund tonna skip með 3.096 farþega innanborðs og 1.239 manna áhöfn.

Skipið, sem ber nafnið MS Azura, er eitt það stærsta sem koma átti hingað til lands í sumar.

Að sögn Gísla Jóhanns Hallssonar, yfirhafnsögumanns, þótti vindáttin ekki nógu hagstæð til að hægt væri að leggja skipinu í Reykjavíkurhöfn, en sterk norðanátt var þar í morgun.

Hafnsögumaður frá Faxaflóahöfnum fór um borð í skipinu snemma í morgun og gerðar voru tvær tilraunir við að koma því að bryggju, en loks var ákveðið nú fyrir hádegi að snúa því við. Mun það því ekki leggja í höfn í Reykjavík og heldur ferð sinni áfram. Skipið hafði hins vegar komið til hafnar á Akureyri og Ísafirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert