Áfram í varðhaldi vegna manndrápstilraunar

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Golli

Hæstiréttur Íslands staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms yfir karlmanni sem grunaður er um tilraun til manndráps eða stórfellda líkamsárás með að hafa ítrekað stungið annan mann í brjóst og handlegg þegar þeir voru um borð á hollensku skipi. Er talið að fórnarlambið hafi gert athugasemd við reykingar hins mannsins í matsal skipsins.

Gæsluvarðhaldsúrskurðurinn nær til 5. júlí eða þangað til maðurinn verður fluttur úr landi.

Hol­lensk yf­ir­völd eru með lög­sögu í mál­inu vegna þess að at­vikið gerðist um borð í hol­lensku skipi og sendu framsals­beiðni vegna þess hingað. Dóms­málaráðuneytið féllst á þá beiðni þeirra. Hafði maðurinn verið eftirlýstur af hollenskum yfirvöldum í Schengen-upplýsingakerfinu. 

Maðurinn var handtekinn 7. maí og hefur áður verið úrskurðaður í gæsluvarðhald. Var meint árás gerð tveimur dögum áður um borð í hollensku gámaflutningaskipi. Sá sem fyr­ir árás­inni varð var flutt­ur með þyrlu bresku strand­gæsl­unn­ar á sjúkra­hús, með stungusár á brjósti og í hand­legg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert