Missti afl vegna rangs frágangs

Vélin endaði á hvolfi á túninu.
Vélin endaði á hvolfi á túninu. Ljósmynd/Úr skýrslu RNSA

Fisflugvél sem nauðlent var á túni við bóndabæ í Úlfarársdal í júní í fyrra og endaði á hvolfi missti afl vegna rangs frágangs á vélinni. Vængir vélarinnar höfðu verið teknir út daginn fyrir atvikið og festir í læstri stöðu en vegna rangs frágangs lokaðist fyrir flæði eldsneytis úr hægri vænggeymi. Þetta kemur fram í lokaskýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa vegna slyssins. 

Fisflugmaður ásamt farþega voru á flugi þegar hreyfill missti afl og stöðvaðist. Í kjölfarið hugðist fisflugmaðurinn nauðlenda á túni við bóndabæ í dalnum. Í lendingunni flæktist girðingarvír í hægra aðalhjóli fissins og hafnaði það í kjölfarið á hvolfi. Hvorugur slasaðist alvarlega.

Eldsneyti þraut eftir 40 mínútna flug

Í ljós kom að skipt hafði verið um eldsneytisleiðslur og hreyfil um tveimur mánuðum fyrir atvikið. Einnig höfðu vængirnir verið teknir út daginn fyrir atvikið og festir í læstri stöðu, en þeir eru lagðir aftur með skrokk fissins til þess að koma því fyrir í litlu skýli að því er fram kemur í skýrslunni.

„Við vettvangsrannsóknina kom í ljós að eldsneytisleiðsla úr hægri eldsneytisgeymi var klemmd saman við vængrótina vegna rangs frágangs og því var lokað fyrir flæði eldsneytis úr hægri vænggeymi. Hægri eldsneytiskrani fissins var opinn, en sá vinstri var lokaður. Af þessum sökum fékk hreyfill fissins aðeins eldsneyti úr litlum safngeymi sem eldsneyti rennur í úr vænggeymum ef opið er fyrir annan hvorn eða báða eldsneytiskranana. Þegar eldsneytið í safngeyminum þraut, eftir um 40 mínútna flug, missti hreyfillinn afl,“ segir í skýrslunni.

Auknar kröfur verði gerðar um þekkingu og vinnubrögð

RNSA hefur áður gefið út skýrslu í tengslum við ófullnægjandi frágang við eldsneytiskerfi fiss, en var það vegna banaslyss er varð á fisi TF-303 þann 20. október 2012 í grennd við fisflugvöllinn Sléttuna á Reykjanesi. Í kjölfarið á því flugslysi gaf RNSA út skýrslu þar sem ein tillagan í öryggisátt, sem snéri að Samgöngustofu, hljóðaði svo: „Auknar kröfur verði gerðar um þekkingu og vinnubrögð þeirra sem vinna að samsetningu sem og viðhaldi fisa.“

Að því er fram kemur í skýrslunni voru viðbrögð Samgöngustofu við tillögunni að hefja, í samvinnu við Fisfélag Reykjavíkur og Sléttuna, vinnu við endurskoðun á samþykktum handbókum fyrir fisfélögin. Að auki gat Samgöngustofa þess að ferli stofnunarinnar við samþykktir á handbókum væri til endurskoðunar og vonaðist til þess að sú vinna kláraðist fyrir vorið 2016. Rannsóknin hafi leitt í ljós að þessari vinnu sé ekki lokið og ítrekar RNSA því tillögu sína.

Hér má lesa skýrsluna í heild

Klemmd eldsneytisleiðsla í hægri vængrót.
Klemmd eldsneytisleiðsla í hægri vængrót. ljósmynd/Úr skýrslu RNSA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert