Segir ökumanninn miður sín yfir gáleysinu

Kynnisferðir hafa eftirlt með aksturlagi ökumanna sinna.
Kynnisferðir hafa eftirlt með aksturlagi ökumanna sinna. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Það er búið að ræða við ökumanninn og fara yfir þetta með honum. Hann er miður sín yfir dómgreindarleysinu og viðurkennir mistök sín,“ segir Kristján Daníelsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða. 

Myndbandsupptaka úr bíl sem birt var á Facebook í gær sýndi rútu á vegum Kynnisferða reyna stórhættulegan framúrakstur við Hjörleifshöfða og mátti litlu muna að ekki færi verr. Tveir bílar úr gagnstæðri átt þurftu að snarhemla og sveigja út í vegakantinn áður en rútan komst aftur á rétta akrein. 

„Það er ekki búið að taka neina ákvörðun enn. Þetta er atvik sem við munum fara yfir til þess að koma í veg fyrir að það komi aftur fyrir.“

Þrátt fyrir að bíllinn sé merktur Kynnisferðum er hann ekki í eigu fyrirtækisins, sem seldi hann nýverið, en hann keyrir þó enn á vegum þess. Kristján segir að Kynnisferðir búi yfir vönduðu eftirlitskerfi sem hjálpi til við að koma í veg fyrir að atvik af þessu tagi endurtaki sig. 

„Við fáum upplýsingar í hvert sinn sem akstursbrot á sér stað hjá bílstjórum okkar. Kerfin eru ekki fullkomin, þú getur verið að keyra fram hjá götu þar sem hámarkshraði er lægri en annars en í þessu tilfelli er hægt að fylgjast vel með og skoða til baka,“ segir Kristján og bætir við að það geti verið erfitt að fylgjast með öllu sem fer fram á vegunum. 

„Kerfin eru orðin nokkuð góð, við nýtum þau til þess að fara yfir öryggismál og tjónamál en því miður er þetta þannig að oftast vitum við ekki af næstum-því-slysunum eins og í þessu tilfelli. Við verðum að nýta þetta til að gera betur.“  

Hér að neðan má sjá myndbandsupptökuna.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert