Ríkisforstjórar fá milljónagreiðslur

Hæstu eingreiðsluna vegna afturvirkrar launahækkunar fær ríkisendurskoðandi, rúmar 4,7 milljónir …
Hæstu eingreiðsluna vegna afturvirkrar launahækkunar fær ríkisendurskoðandi, rúmar 4,7 milljónir króna. mbl.is/Golli

Ríkisendurskoðandi hækkar um 29,5 prósent í launum og fær 4,7 milljóna króna eingreiðslu, forstjóri Fjármálaeftirlitsins um 14,8 prósent og fær um fjögurra milljóna króna greiðslu, forsetaritari um 19,6 prósent og fær 1,8 milljónir króna, hagstofustjóri um 11,4 prósent og fær 1,2 milljónir í eingreiðslu og framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar um 12,8 prósent og fær 2,5 milljóna króna eingreiðslu.

Þetta kemur fram í frétt BSRB þar sem búið er að taka saman áhrif úrskurðar Kjararáðs um að hækka laun sjö embættismanna og allra sendiherra afturvirkt. 

Í umfjöllun BSRB um störf kjararáðs segjast samtökin ætla að horfa til þess fordæmis sem kjararáð hefur sett þegar kemur að gerð nýrra kjarasamninga. „Sú ákvörðun kjararáðs að hækka laun vel launaðra ríkisforstjóra og sendiherra um tugi prósenta, afturvirkt, er í hrópandi ósamræmi við samkomulag sem aðilar á vinnumarkaði, þar með talið ríkið, gerði þegar unnið var að endurbótum að vinnumarkaðsmódelinu,“ segir á vef BSRB.

Kjararáð starfar í umboði Alþingis

Þar segir enn fremur að kjararáð starfi ekki í tómarúmi heldur í umboði Alþingis. „Þingið skipar þrjá af fimm fulltrúum í ráðinu. Hinir tveir eru skipaðir af fjármálaráðherra annars vegar og Hæstarétti hins vegar. BSRB hefur skorað á Alþingi að breyta lögum um kjararáð þannig að ráðið verði ekki leiðandi í launamálum. Við því hefur ekki verið brugðist,“ segir á vef BSRB.

Þá er rétt að ítreka gagnrýni á hversu ógagnsætt kjararáð er í ákvörðunum sínum. Þar er þess vandlega gætt að tiltaka ekki hver laun þeirra sem ákvarðanirnar ná til voru áður en ákvörðunin tók gildi. Það er því oft erfitt eða ómögulegt að sjá hversu miklar hækkanirnar eru í raun. Þessum feluleik þarf að linna og það er Alþingis að sjá til þess að almenningur hafi þær upplýsingar sem þarf. Þessi feluleikur er með öllu óþolandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert