Sagt að réttindin væru fullnægjandi

Maðurinn telur ekki hægt að rekja slysið til einhvers sem …
Maðurinn telur ekki hægt að rekja slysið til einhvers sem hann gat borið ábyrgð á. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ákærði telur að orsök slyssins verði ekki rakin til einhvers sem hann bar ábyrgð á. Hann er launþegi hjá fyrirtækinu og hver er ábyrgð þess að ráða fólk til starfa með tilskilin réttindi? Um er að ræða óhappatilvik og þá spyr maður um ábyrgð útgerðarinnar.“

Þetta segir Áslaug Gunnlaugsdóttir, lögmaður manns sem ákærður er fyrir manndráp af gáleysi, fyrir að hafa bakkað hjólabát á kanadíska konu við Jökulsárlón árið 2015, með þeim afleiðingum að hún lést samstundis. Málið var þingfest í Héraðsdómi Austurlands í morgun og krafðist maðurinn sýknu af öllum ákæruliðum.

„Þegar ákærði réð sig til starfa hjá félaginu þá upplýsti hann um þau réttindi sem hann hafði. Félagið sagði honum að þau væru fullnægjandi, enda væri það með undanþágu frá Samgöngustofu vegna siglinga á Jökulsárlóni,“ segir Áslaug, en félagið sem um ræðir er Jökulsárlón ehf.

Shelagh Donov­an lét lífið við Jök­uls­ár­lón í hörmu­legu slysi.
Shelagh Donov­an lét lífið við Jök­uls­ár­lón í hörmu­legu slysi. Ljósmynd/Michael Boyd

„Það er mikilvægt að skoða hvað er að gerast á milli Samgöngustofu og félagsins. Hann kom hreint til dyranna og lagði spilin á borðið hvaða réttindi hann hafði. Honum var sagt að þau dygðu til að stýra hjólabátnum út á lónið.“ Að sögn Áslaugar er maðurinn enn í vinnu hjá áðurnefndu félagi á sömu forsendum og áður en slysið átti sér stað.

Hún bendir á niðurstöðu skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa þar sem fram kemur að öryggismál á svæðinu hafi verið ólestri. „Þar kemur fram að ýmislegt var í ólagi á svæðinu þar sem báturinn keyrir um,“ segir Áslaug, en í skýrslunni kemur meðal annars fram að bakk­mynda­vél, sem er í öll­um slík­um bát­um sem sigla á Jök­uls­ár­lóni, hafi verið biluð í bátn­um og svo hafi verið um nokk­urt skeið. Þá hafi hvorki skip­stjór­inn né ann­ar starfsmaður gengið úr skugga um að hættu­laust væri að aka aft­ur á bak.

Það var lögreglustjórinn á Suðurlandi sem gaf út ákæru á hendur manninum, en þess er krafist að hann verði dæmdur til refsingar, sviptingu ökuleyfis og til greiðslu alls málskostnaðar. Verði hann fundinn sekur um manndráp af gáleysi gæti hann átt yfir höfði sér sex ára fangelsi.

Fjölskylda konunnar sem lést féll í morgun frá einkaréttarkröfu þar sem þau kröfðust um 44 milljóna króna í skaðabætur vegna slyssins. „Tryggingafélag fyrirtækisins hefur gengist við bótaskyldu og ættingjar konunnar hafa nú þegar fengið einhverjar milljónir greiddar,“ útskýrir Áslaug.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert