Sjúkraþyrluflug verði aukið verulega

Sjúkraþyrla líkt og fagráðið leggur til að verði tekin í …
Sjúkraþyrla líkt og fagráðið leggur til að verði tekin í notkun fyrst til reynslu er smærri, ódýrari í rekstri og hljóðlátari. Sjúkraþyrlur koma þó aldrei alveg í staðinn fyrir björgunarþyrlur þar sem sjúkraþyrlurnar geta ekki flogið við jafnerfið veðurskilyrði og björgunarþyrlurnar svo dæmi sé tekið. mbl.is/Árni Sæberg

Lagt er til að sérstakri sjúkraþyrlu verði komið á fót á Suður- og Vesturlandi til reynslu í eitt til tvö ár áður en framtíðarfyrirkomulag sjúkraflutninga verður ákveðið. Þetta kemur fram í skýrslu fagráðs um sjúkraflutninga. Áætlað er að verkefni fyrir þyrlu á Suður- og Vesturlandi séu í kringum 300 til 600 á ári. Á Norðurlöndunum nemur kostnaður við rekstur sjúkraþyrlu um 650 milljónum króna á ári og er ætlað að kostnaðurinn verði svipaður hér á landi.

Ráðið leggur til að þyrlur verði notaðar til að sinna sjúkraflutningum á Íslandi og verði fastur hluti af sjúkraflutningaviðbragði, til viðbótar við sjúkrabíla og sjúkraflugvél. Stjórnir Félags bráðalækna og Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands styðja þá tillögu.

Þá leggur ráðið til að þyrluáhafnir verði á staðarvöktum í stað bakvakta til að tryggja stuttan viðbragðstíma og að í áhöfn verði teymi læknis og bráðatæknis eða læknis og hjúkrunarfræðings með mikla þekkingu og reynslu í bráðaþjónustu utan spítala.

Sérhæfð meðferð skilar sífellt betri árangri við alvarleg slys og bráð veikindi. Til þess að hún skili besta mögulega árangri þarf að veita hana sem fyrst, segir í skýrslunni. Slík meðferð er aðallega veitt á Landspítala og langar vegalengdir hamli því að þeir sem slasast eða veikjast utan Reykjavíkur fái sem besta meðferð. Víða erlendis eru þyrlur og flugvélar notaðar til að bæta aðgengi íbúa í dreifbýli að sérhæfðri meðferð.

Með því að nota þyrlur við sjúkraflutninga má auka aðgengi …
Með því að nota þyrlur við sjúkraflutninga má auka aðgengi landsbyggðarinnar að sérhæfðri læknisþjónustu en slík meðferð skilar stöðugt betri árangri við alvarleg slys og veikindi. mbl.is/Árni Sæberg

Sjúkraþyrlur hljóðlátari, björgunarþyrlur betri í erfiðum aðstæðum

Þyrlur sem notaðar eru til sjúkraflutninga eru minni og léttari en þyrlur til björgunar líkt og þær sem eru í eigu Landhelgisgæslunnar. Þá valda sjúkraþyrlur minna niðurstreymi og eru hljóðlátari, sem þarft er að hafa í huga verði hlutur þyrla í sjúkraflutningum stóraukinn.

Þá geta sjúkraþyrlur lent nær slysstað og minna mál er að drepa á vélunum á slysstað og við komu á sjúkrahús því þær eru fljótar í gang aftur. „Þetta kann að vera mikilvægur þáttur ef þyrlur verða reglulegur liður í sjúkraflutningum hérlendis og lendingar á nýrri byggingu Landspítalans verðar tíðar,“ segir í skýrslunni.

Sjúkraþyrlurnar eru ódýrari bæði í innkaupum og rekstri en björgunarþyrlur en björgunarþyrlur geta aftur á móti flogið við fleiri skilyrði. Smærri þyrlur, sérstaklega innréttaðar, mannaðar og reknar til sjúkraflutninga gætu sinnt stærstum hluta þeirra sjúkraflutninga sem Landhelgisgæslan sinnir í dag. 

Þá dugir oftast minni áhöfn til þess að sinna þeim verkefnum sem sjúkraþyrlum er ætlað. Ódýrari þyrlur og minni áhafnir þýða að hægt er að halda rekstrarkostnaði einingarinnar niðri.

Sérstök flugrekstrareining sæi um allt flug

Fagráð sjúkraflutninga bendir á að áherslur Landhelgisgæslunnar séu á eftirlit og þjónustu við sjófarendur. Því séu engin sérstök samlegðaráhrif stofnunarinnar í sjúkraflutningum og heilbrigðisþjónustu, nema hvað varðar slys og veikindi á sjó.

„Eigi starfsemi sjúkraflutninga og björgunarstarfs að fara saman svo vel sé væri eðlilegt að sú eining sem héldi utan um þann rekstur væri sjálfstæð. Þá er mikilvægt að einingin sé ekki háð rekstri annarra stofnana, hvort sem það eru varðskip eða sjúkrahús. Sérstök flugrekstrareining sem sæi um allt sjúkraflug, björgunarflug og önnur flugverkefni á vegum ríkisins,“ segir í skýrslunni. „Þar gæti sjúkraflug, bæði með þyrlum og fastvængja flugvélum, átt vel heima.“

Þá segir fagráðið mögulega hagkvæmara að bæta sjúkraþyrlu inn í kerfið en að setja áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar á bundna vakt og auka fjölda flugtíma hennar um 200 til 300 á ári. Á sama tíma sé verið að bæta viðbragðsgetu kerfisins og styrkja innviði sjúkraflutninga.

Sérhæfð meðferð er aðallega veitt á Landspítalanum í Reykjavík.
Sérhæfð meðferð er aðallega veitt á Landspítalanum í Reykjavík. mbl.is/Ómar

Á móti kemur að litlar þyrlur séu ekki jafnöflugar og björgunarþyrlur og skoða þyrfti vel hversu vel þær myndu nýtast vegna veðurs. Litlum þyrlum er ekki ætlað að sinna stórum björgunarverkefnum á borð við þau sem þyrlur Landhelgisgæslunnar sinna og því verða björgunarþyrlur alltaf nauðsynlegar, sama hvaða leið er farin.

Þar segir einnig að einn helsti kosturinn við að koma á sjúkraþyrlukerfi yrði sá að sú þjónusta hefði sjúkraflutninga sem aðalverkefni. Þannig mætti auka gæði og öryggi þjónustunnar gagnvart sjúklingum og meðferð þeirra og byggja upp sterkara teymi til þess að sinna bráðameðferð utan spítala.

Önnur björgunarþyrlan á Vestfirði eða Austfirði

Til framtíðar horfir nefndin til þess að eðlilegt væri að tvær björgunarþyrluáhafnir yrðu staðsettar hvor sínu megin á landinu til að stytta viðbragðstíma við bæði björgun og sjúkraflutninga en í dag er öll viðbragðsgetan í Reykjavík. Sú öryggiskrafa er gerð að við björgun á sjó fari tvær þyrlur í verkefni sem eru meira en 20 sjómílur frá landi.

Með því að staðsetja aðra björgunarþyrluna á Vestfjörðum eða Austfjörðum gætu þær nýst vel til sjúkraflutninga án þess að íþyngja annarri starfsemi, s.s. löggæslu og landhelgisgæslu þar sem verkefni vegna sjúkraflutninga eru færri á þessum stöðum en t.d. á Vesturlandi eða Suðurlandi.

Skýrsluna má nálgast hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert