Skóflustunga að nýjum stúdentagörðum

Fyrsta skóflustungan að nýjum stúdentagörðum við Sæmundargötu tekin í dag.
Fyrsta skóflustungan að nýjum stúdentagörðum við Sæmundargötu tekin í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrsta skóflustungan að nýjum stúdentagörðum sem munu rísa á háskólasvæðinu var tekin í dag. „Þetta nýtist bæði stúdentum og þeim sem vilja góðan almennan leigumarkað,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Leggur áherslu á fjölgun stúdentaíbúða

Nýja byggingin verður að Sæmundargötu 23 og mun telja 220 íbúðir og herbergi. Fulltrúar frá Félagsstofnun stúdenta, Stúdentaráði Háskóla Íslands, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands og Vísindagörðum Háskóla Íslands tóku saman fyrstu skóflustunguna í dag. 

Dagur segir Reykjavíkurborg leggja mikla áherslu á fjölgun stúdentaíbúða eins fljótt og hægt er því hver stúdentaíbúð losi um leiguíbúð á hinum almenna leigumarkaði. Þessi uppbygging nýtist því ekki einungis stúdentum. 

Uppbygging á háskólasvæðinu minnkar umferð

Borgarstjóri tók undir orð Rögnu Sigurðardóttur, formanns Stúdentaráðs, um að uppbygging á háskólasvæðinu sjálfu minnki umferð. „Eftir því sem við getum gefið fleiri stúdentum kost á að búa nálægt sínum vinnustað þá fækkar bílunum í umferðinni,“ sagði Dagur í samtali við mbl.is. 

Frekari uppbygging er í bígerð en fyrirhugað er að ný bygging rísi við Gamla-Garð. „Svo er Háskólinn í Reykjavík að fara að byggja tæplega 400 íbúðir hinum megin við Vatnsmýrina, þannig að það er gríðarlegur gangur í þessu,“ segir Dagur.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri FS, …
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri FS, Ragna Sigurðardóttir, formaður SHÍ, Eiríkur Hilmarsson, framkvæmdastjóri Vísindagarða HÍ og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, taka fyrstu skóflustunguna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hefur áhrif á verð á almennum markaði

Dagur kveðst mjög ánægður með þá stefnu Félagsstofnunar stúdenta að halda leiguverði í lágmarki. „Við erum að leggja mikla áherslu á samstarf við húsnæðisfélög sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni,“ segir hann.

Borgarstjóri segir slíkt samstarf vera til þess fallið að veita hinum frjálsa fasteigna- og leigumarkaði aðhald. „Það hefur óbeint áhrif á það verð sem er í boði annars staðar á leigumarkaði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert