„Þetta er ekki Miklabrautin“

Hér sést hvernig hraðatakmörkunum hefur verið komið fyrir á stígnum.
Hér sést hvernig hraðatakmörkunum hefur verið komið fyrir á stígnum. Mynd/Eggert Sigurðsson

„Í vor hjólaði þarna hjólreiðamaður á dreng sem er í leikskólanum. Í kjölfarið sendi ég póst á umhverfissvið borgarinnar og bað um að þetta yrði tekið mjög föstum tökum,“ segir Edda Huld Sigurðardóttir, skólastjóri Barnaskóla Hjallastefnunnar, um slys sem átti sér stað á hjólreiðastíg sem liggur fram hjá skólanum og í gegnum Öskjuhlíð.

„Við höfðum fram að því haft áhyggjur af þessu, enda var bara lítið skilti þarna með mynd af börnum að leik. Í raun var ekkert sem minnti hjólreiðamenn á að þeir þyrftu að draga úr hraðanum,“ segir Edda.

Börnin í skólanum, sem og leikskólanum Öskju, nýta Öskjuhlíðina mikið til útivistar, en til að komast inn í skóginn þurfa þau að fara yfir hjólastíginn. Þrátt fyrir að börnin séu í fylgd kennara getur skapast hætta við stíginn og slys hafa orðið.

Hjólreiðafólk hjólar gjarnan á miklum hraða eftir stígnum á þessu svæði, enda hann beinn og breiður og í töluverðum halla. Starfsfólk barnaskólans og leikskólans Öskju, sem og foreldar, hafa biðlað til borgarinnar um að settar verði upp varanlegar hraðatakmarkanir á stígnum. Ekki hefur enn verið orðið við því.

Áðurnefndan póst senda Edda á umhverfissvið borgarinnar í maí, en honum hefur ekki verið svarað. „Það komu reyndar hérna menn og settu upp bráðabirgðaskilti, en annað veit ég ekki.“

Keilur og skilti fjarlægð

Töluverðar deilur hafa skapast um hjólreiðastíginn í Facebook-hópnum Reiðhjólabændur. Það var áhyggjufullur og árvökull faðir sem birti færslu hópnum og biðlaði til hjólreiðafólks að fara varlega þegar hjólað væri fram hjá skólanum, í ljósi gangandi umferðar barna um svæðið. Hann hafði tekið eftir því að keilur og skilti, sem sett höfðu verið upp til að draga úr hraða hjólreiðafólks, voru ítrekað fjarlægð.

Hjólreiðafólk fjarlægir gjarnan keilurnar af stígnum.
Hjólreiðafólk fjarlægir gjarnan keilurnar af stígnum. Mynd/Eggert Sigurðsson

„Stöku hjólreiðamönnum líkar ekki þessi aðgerð borgarinnar og henda keilunum út af stígnum. Hafa jafnvel gengið svo langt að ógna starfsfólki skólans um leið og þeir í bræði sinni henda keilunum inn á milli trjánna,“ skrifaði hann meðal annars í færslu sinni sem féll í ansi grýttan jarðveg hjá stórum hópi Reiðhjólabænda. Hann gaf mbl.is leyfi til að birta ummæli sín.

Hjólreiðamenn vilja einhverjir meina að um stofnbraut sé að ræða sem gegni í raun svipuðu hlutverki og Miklabrautin fyrir hjólreiðafólk. Foreldar barna í skólanum, sem og kennarar, benda hins vegar á að Öskjuhlíðin sé mikið nýtt af skólabörnum og öðrum, enda sé um útivistarsvæði að ræða. Það verði hjólreiðafólk að hafa í huga þegar hjólað er eftir stígnum.

Foreldrar gætu hafa tekið málin í sínar hendur

Til viðbótar við skiltin sem Edda minntist á hefur keilum verið komið fyrir á stígnum til að reyna að draga úr hraða hjólreiðafólks, en það hefur ekki dugað til. Margir benda á það við færsluna í Facebook-hópnum, að keilurnar geti stofnað hjólreiðafólki í hættu. Þess vegna eru þær ítrekað fjarlægðar. Deiluaðilar innan hópsins virðast vera sammála um keilurnar séu líklega ekki besta lausnin, en benda jafnframt á nauðsyn þess að fá varanlega lausn, ef draga eigi úr hraðanum með einhverjum hætti.

Þorsteinn Hermannsson, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar, segir skiltin hafa verið sett upp eftir að ábendingar bárust um „að þarna væru börn gjarnan að leik við hjólastíginn og að hætta gæti skapast.“ Þorsteinn kannast hins vegar ekki við að keilur hafi verið settar á stíginn og segir þær ekki á vegum borgarinnar.

Deiluaðliar í hópnum eru sammála um að keilurnar séu líklega …
Deiluaðliar í hópnum eru sammála um að keilurnar séu líklega ekki besta lausnin. Mynd/Eggert Sigurðsson

Edda segir keilurnar heldur ekki á vegum skólans, enda hafi þau ekki vald til að setja slíkar hindranir upp. Sjálf hélt hún að keilurnar væru á vegum borgarinnar. „Við getum bara kallað eftir aðstoð þar til bærra yfirvalda. Það getur þó vel verið að einhverjir foreldrar hafi tekið málin í sínar hendur. Ég veit þá ekki hvort það eru foreldrar barna í skólanum eða leikskólanum. Það var auðvitað leikskólabarn sem var hjólað á. Það voru foreldrar sem sáu þetta gerast og fólki blöskrar á einhverjum tímapunkti.“

Aðspurður segist Þorsteinn ekki hafa fengið formlegar kvartanir frá hjólreiðafólki vegna málsins, en það er til skoðunar að setja upp einhvers konar varanlegar hraðahindranir á stígnum. „Það er til skoðunar að setja 3 millimetra þykkar þverrendur á hjólreiðastíga á völdum stöðum til vekja athygli hjólreiðamanna og að draga úr hraða þar sem margir gangandi eru að þvera stíga. Svona þverrendur hafa til dæmis verið notaðar þar sem reiðstígur þverar göngu- og hjólastíg í Víðidal,“ segir Þorsteinn.

Logandi hrædd um krakkana

Eygló Árnadóttir, móðir barna í skólanum, tók þátt í umræðunni í Facebook-hópnum og henni blöskraði reiði hjólreiðafólks yfir hugmyndum um hraðatakmarkanir og hindranir.

„Það er auðvitað æðislegt að hafa þennan hjólastíg. Ég nota hann þegar ég hjóla með krakkana í skólann, enda er þetta mjög skemmtileg leið. En vissulega er ég oft logandi hrædd um krakkana mína þarna. Ég er með einn tveggja ára sem á það til að hlaupa á undan og aðra sex ára sem er nýbúin að læra að hjóla án hjálpardekkja.“

Hér sést hvað stígurinn liggur nálægt barnaskólanum.
Hér sést hvað stígurinn liggur nálægt barnaskólanum. Mynd/Eggert Sigurðsson

Það kom Eygló mjög á óvart, í umræðinni í Facebook-hópnum, hvað hjólreiðafólk virtist mjög mótfallið hraðatakmörkunum á þessu svæði og lítið tilbúið að taka tillit til barnanna. „Ég var svo gapandi hissa þegar fólk talaði um stíginn sem stofnbraut og að börn ættu ekki að vera að þvælast þarna. Þetta er skóglendi og stígurinn er ekki bara lagður um útivistarsvæði þar sem eru gangandi vegfarendur, heldur líka rétt upp við skólann. Hann er hreinlega á skólalóðinni. Það er sjálfsagt að stígurinn sé vel nýttur af hjólreiðafólki en það er gott að hafa í huga að þetta er ekki Miklabrautin. Þarna eru gangandi vegfarendur, börn og dýr. Þetta líf hættir ekki að vera þarna þrátt fyrir að lagður sé hjólastígur. Svæðið verður ekki eingöngu hjólasvæði sem enginn annar má þvælast á. Þarna mætist ólík umferð og allir þurfa að sýna hverjir öðrum virðingu og gæta öryggis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert